Stór skjálfti að stærð 4,1 varð klukkan 14:17 í dag en það er sá fimmti í dag sem mælist yfir þremur. Um klukkan hálf tólf í morgun hófst jarð­skjálfta­hrina rétt vestan við Eld­vörp.

Skjálftinn sem varð á þriðja tímanum fannst vel á bæði Reykja­nes­skaganum og á höfuð­borgar­svæðinu.

Í til­kynningu frá Veður­stofunni kemur fram að hátt í 200 jarð­skjálftar hafa mælst á svæðinu frá því að hrinan hófst.

„Við viljum einnig benda á það að grjót­hrun og skriður geta átt sér stað í bröttum hlíðum þegar skjálftar af þessum stærðum eiga sér stað og fólk því beðið um að hafa að­gát vegna þessa,“ segir Bryn­dís Ýr Gísla­dóttir, náttúru­vá­r­sér­fræðingur, í til­kynningu frá Veður­stofunni

Stærstu skjálftarnir í dag

3,5 að stærð kl. 11:35

3,7 að stærð kl. 12:01

3,4 að stærð kl. 12:11

3,1 að stærð kl. 12:26

4,1 að stærð kl. 14:17