Jarðskjálfti að stærð 3,6 mældist klukkan 11:23 í dag um 3,6 kílómetra norðnorðaustur við Grindavík.

Að sögn Veðurstofu Íslands hafa nokkrir minni skjálftar mælst í kjölfarið og bárust tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist í Grindavík. Þá mældist jarðskjálfti að stærð 2,6 á fimmta tímanum í nótt 3,8 kílómetra norðnorðaustur af Grindavík.

Töluverð skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesi það sem af er ári. Fram kemur á vef Veðurstofunnar að rúmlega 200 jarðskjálftar hafi mælst á Reykjanesskaga í síðustu viku. Var sá stærsti 2,4 að stærð og mældist 25. nóvember. Mesta virknin var norðaustur af Grindavík, eða tæplega 100 skjálftar.