Skjálfti af stærðinni 4,1 mældist skammt frá Keili skömmu eftir há­degi í dag en skjálftinn átti upp­tök sín rúm­lega þrjá kíló­metra suð­vestan af Keili. Stærsti skjálftinn sem mælst hefur frá mið­nætti varð klukkan hálf tvö í nótt á svipuðum stað og var 4,9 að stærð.

Að því er kemur fram í til­kynningu frá náttúru­vá­sér­fræðingum Veður­stofu Ís­lands hafa tæp­lega 1500 skjálftar mælst á svæðinu frá mið­nætti en af þeim skjálftum voru 18 af stærð 3,0 eða stærri.

Skjálftarnir eru hluti af jarð­skjálfta­hrinu sem hófst á Reykja­nes­skaga þann 24. febrúar síðast­liðinn með skjálfta af stærðinni 5,7 en þó nokkrir stórir skjálftar hafa komið í kjöl­farið.

Ekki óalgengt

Frá upp­hafi hrinunnar hafa rúm­lega 11,5 þúsund skjálftar mælst á svæðinu með sjálf­virku jarð­skjálfta­mæli­kerfi Veður­stofu Ís­lands. Um 30 skjálftar hafa verið yfir 4,0 að stærð og 200 skjálftar hafa verið yfir 3,0 að stærð.

Sér­fræðingar taka fram að skjálfta­hrinur eins og þessar séu ekki ó­al­gengar en til að mynda mældust um fimm skjálftar 10. júní 1933 sem voru af stærð 4,9 til 5,9 við Fagra­dals­fjall.