Tveir skjálftar að stærðinni 3,2 áttu sér stað í Mýr­dals­jökli upp úr klukkan sjö í gær­kvöldi. Stuttu eftir há­degi á mið­viku­dag var einnig einn skjálfti í jöklinum upp á stærð 3,1.

„Það er nokkuð títt að það komi skjálftar í Mýr­dals­jökli á sumrin,“ segir Salóme Jórunn Bern­harðs­dóttir náttúru­vá­r­sér­fræðingur hjá Veður­stofunni.

Jarð­skjálftar að þessari stærð koma oft upp í jöklinum á sumrin vegna bræðslu og sig­katla sem geta fyllst af vatni og stundum hlaupið úr.

Náttúru­vá­r­sér­fræðingar hjá Veður­stofunni fylgjast grannt með stöðunni en ekki er merki um gos­ó­róa eða jökul­hlaup.