Jarðskjálfti af stærðinni 3,8 varð skammt norðaustur af Bárðarbungu klukkan rétt rúmlega eitt í nótt. Bárðarbunga er á norðvestanverðum Vatnajökli og er víðáttumesta eldstöð landsins.
Um tuttugu mínútum síðar varð skjálfti af stærð 3,0 á Kötlusvæðinu, nánar tiltekið í Goðabungu undir Mýrdalsjökli. Að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands bárust engar tilkynningar um að skjálftarnir hafi fundist í byggð.