Tveir nokkuð snarpir jarðskjálftar urðu á Reykjanesskaga í morgun og fundust þeir báðir víða á suðvestanverðu landinu.
Sá stærri varð klukkan 7:26 og reyndist 4,2 að stærð og sá seinni klukkan 7:39 og var 3,3 að stærð. Skjálftinn klukkan 7:26 var staðsettur við Stóra-Hrút nærri Fagradalsfjalli en sá klukkan 7:39 skammt austan við Kleifarvatn.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands kemur fram að skjálftar sem hafa orðið norðan við Grindavík og nærri Kleifarvatni séu líklega svokallaðir gikkskjálftar, en þeir verða þegar þrýstingur vegna kvikusöfnunar við Fagradalsfjall skapar spennu á öðrum stöðum í jarðskorpunni.
Frá miðnætti í dag og þar til klukkan átta í morgun mældust um 1200 skjálftar en alls mældust 3600 skjálftar í gær. Þar af sjö sem voru 4,0 eða stærri að stærð. Frá því að hrinan hófst hafa hátt í 12 þúsund skjálftar mælst, þar af fjórtán 4,0 eða stærri að stærð.