Frá miðnætti hafa mælst um 1500 jarðskjálftar á Reykjanesskaga, flestir sunnan megin við Fagradalsfjall. Mesta skjálftavirknin undanfarið er við Eldvörp en þar hafa orðið átta skjálftar í dag að sögn Bjarka Friis, náttúruvássérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Milli hálf ellefu og hálf tólf datt skjálftavirkni niður um allt land og verið rólegt síðan. Flestir skjálftar hafi verið undir tveir að stærð.

„Þetta er auðvitað ekki búið eða neitt svona,“ segir Bjarki. Engin gosórói sé á svæðinu en tekið sé að hægjast um eftir skjálftahrinuna í gær og nótt. Ekkert sé hægt að segja til um hvernig málin þróast.

Lítil hreyfing hafi verið á skjálftavirkninni við Fagradalsfjall, sem hafi færst örlítið til suðvesturs og sé nú við Eldvörp. Hraungangurinn sé suðvestan við Fagradalsfjall en skjálftavirknin þar sé ekki að færast mikið.