Ekkert lát virðist vera á jarðskjálftum á Reykjanesi en skjálftahrinan sem hófst á svæðinu í nótt heldur áfram þar sem fjölmargir skjálftar hafa mælst í kvöld, sá stærsti 3,4 að stærð á níunda tímanum og átti hann upptök sín skammt frá Fagradalsfjalli. Annar jafn stór skjálfti varð skömmu fyrir klukkan 10.

Líkt og greint var frá fyrr í dag mældist stærsti skjálftinn 5,7 að stærð skömmu eftir klukkan tíu í morgun en alls hafa rúmlega 50 skjálftar á svæðinu verið yfir þrír að stærð í dag. Skjálftarnir í kvöld voru þeir stærstu frá því klukkan 16:30 í dag en sá skjálfti var 3,6 að stærð. 

Greint var frá því í tíu fréttum RÚV að aukinn mannskapur sé nú að störfum hjá Veðurstofu Íslands þar sem verið er að fylgjast með stöðunni. Að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni, er virkni enn mikil á svæðinu.

„Virknin er svo sannarlega ekki búin. Við erum áfram að mæla mikið af skjálftum,“ sagði Einar í samtali við RÚV. Hættustig er nú í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, og í Árnessýslu vegna skjálftanna.