Dómstólar, lögregluembætti og heilbrigðisstofnanir standa illa er kemur að því að uppfylla lög og reglur sem lúta að skjalavörslu. Þetta kemur fram í niðurstöðum eftirlitskönnunar Þjóðskjalasafns sem kynnt var á ráðstefnu safnsins í gær.

Eftirlitskönnunin, sem fram fór í febrúar, leiddi í ljós að þótt skjalavarsla og skjalastjórn ríkisins fari batnandi miðað við fyrri kannanir sé enn víða pottur brotinn.

Alls eru 1.400 rafræn gagnakerfi í notkun hjá ríkinu, hefur Þjóðskjalasafn aðeins fengið tilkynningar um 20 prósent þessara kerfa og gögn úr aðeins þremur prósentum þeirra.

Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri hjá Þjóðskjalasafni, segir að ein afleiðing þess að ríkið hugi ekki að varðveislu rafrænna gagna geti verið sú að mikilvægar upplýsingar ríkisins tapist. Þá sé upplýsingaréttur almennings ekki virkur því gögn finnist ekki þegar á þarf að halda eða að gögn sem haft geti áhrif á réttindi eða hagsmuni séu ekki á sínum stað.

Nýlegt dæmi er þegar Verðlagsstofa skiptaverðs fann ekki skjal sem vísað var til í Kastljósi árið 2012 og rataði aftur í fréttir nýverið. Hóf Þjóðskjalasafn athugun á málinu í kjölfarið.

„Ég tel að staðan sé þessi þar sem ríkisvaldið hafi ekki veitt nægu fjármagni til ríkisstofnana til að geta leyst þessi verkefni,“ segir Njörður. Dæmi séu um að stofnanir hafi ekki búnað til að halda utan um skjölin og afhenda þau Þjóðskjalasafni. „Til dæmis heilbrigðisstofnanir, þær vantar fé til að sinna sínum lögbundnu verkefnum, þá mætir þetta afgangi.“