Þetta fer rosalega vel af stað og fólk er ánægt með þetta. Þeir sem eru að prófa eru mjög spenntir fyrir þessu,“ segir Sigþrúður Guðnadóttir, verkefnastjóri Velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar, um skjáheimsóknir sem velferðarsvið býður nú upp á.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma en vegna COVID-19 faraldursins var ákveðið að flýta innleiðingunni. Í byrjun síðustu viku fengu fjórir notendur félagslegrar heimaþjónustu spjaldtölvu heim til sín sem þeir nota til að vera í samskiptum við starfsfólk heimaþjónustunnar.

Berglind Víðisdóttir, deildarstjóri og hjúkrunarfræðingur á velferðarsviði, segir að í fyrsta fasa hafi sérstaklega verið horft til hópa sem hafi verið að afþakka þjónustu í ljósi COVID-19.

„Við forgangsröðuðum því fólki sem við töldum að væri jafnvel kannski svolítið eitt á báti og væri ekki með sterkt stuðningsnet í kringum sig. Núna erum við að bjóða upp á einfalda lausn fyrir okkar skjólstæðinga sem tryggir góð samskipti, öryggi og áframhaldandi góða þjónustu,“ segir Berglind.

Nú í vikunni verður einnig farið að bjóða upp á skjáheimsóknir fyrir notendur heimahjúkrunar. „Við erum tilbúin með 80 spjaldtölvur þannig að við höfum gott svigrúm til að veita þessa þjónustu. Það er búið að setja upp fullkomið skjáver með góðri myndavél og heyrnartólum þannig að það er hægt að veita þessa þjónustu algjörlega þaðan,“ segir Sigþrúður.

„Við erum til dæmis með einstaklinga með langvinna sjúkdóma sem þurfa mikið og gott eftirlit. Ég sé mikil tækifæri þar til að bjóða upp á þessa þjónustu. Þá sem viðbót við aðra þjónustu eða hreinlega í staðinn fyrir vitjanir heim til fólks,“ segir Berglind.

Hún segir að þótt nú sé verið að bregðast við sérstökum aðstæðum verði ávinningurinn enn víðtækari. „Reynslan af þessari krísu mun nýtast okkur í áframhaldandi þróun því við erum ekkert hætt. Við erum rétt að byrja og ætlum að innleiða vonandi fleiri tæknilausnir í heimahjúkrun og heimaþjónustu,“ segir Berglind.

Kerfið sem notað er kemur frá Memaxi sem er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki í velferðarþjónustu. Ingunn Ingimars, forstjóri fyrirtækisins, segir að mikil áhersla sé lögð á vellíðan, öryggi og ró notandans.

„Viðmótið þarf að vera mjög einfalt og við höfum alltaf lagt mikið kapp á það. Notandinn sjálfur þarf ekki að hafa neina tækniþekkingu,“ segir Ingunn.

Hún segir að það skipti starfsfólk miklu máli að geta séð hvernig skjólstæðingnum líði, hvort hann sé á fótum og hvernig hann sé áttaður.

„Velferðartækni er eitthvað sem þarf að taka fastari tökum og núna sjáum við að fólk er að einangrast út af COVID-19. Nú skilur fólk betur þörfina og sér hve mikilvægt það er að geta verið í samskiptum við fólk inni á heimilum í gegnum skjáheimsóknir,“ segir Ingunn.