Spáð er svokölluðu skítaveðri á kjördag, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Á hádegi er spáð ausandi rigningu og jafnvel tuttugu metrum á sekúndu. Ef illviðrið gengur eftir gæti það haft áhrif ekki bara á kjörsókn heldur einnig á útkomu kosninganna.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir að „alvöru skítaveður“ geti að líkindum helst haft áhrif á að eldra fólk fari síður að kjósa.
„Ef við gefum okkur að eitthvað sé til í þeirri tilgátu væru það Píratar og Viðreisn sem myndu síst tapa á því. Á hinn bóginn eiga þeir flokkar mest hjá yngstu hópunum sem skila sér verst á kjörstað hvort eð er,“ segir Grétar Þór.
Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðiprófessor og helsti greinandi RÚV á kosninganótt, bendir á að rannsókn hafi verið gerð um veður og kjörsókn í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. „Mig minnir að niðurstaðan hafi orðið sú að Sjálfstæðismenn fengju heldur meira fylgi í góðu veðri á kjördag,“ segir Ólafur.
Hann bendir á að boðað illviðri næsta laugardag skipti kannski eitthvað minna máli nú þar sem mun fleiri kjósi nú utan kjörfundar er áður.
„Fjölmiðlar ættu reyndar að hvetja fólk til að kjósa utan kjörfundar ef veðurspáin fyrir kjördag verður áfram skelfileg,“ segir Ólafur Þ. Harðarson.
