Spáð er svo­kölluðu skíta­veðri á kjör­dag, ekki síst á höfuð­borgar­svæðinu. Á há­degi er spáð ausandi rigningu og jafn­vel tuttugu metrum á sekúndu. Ef ill­viðrið gengur eftir gæti það haft á­hrif ekki bara á kjör­sókn heldur einnig á út­komu kosninganna.

Grétar Þór Ey­þórs­son, prófessor í stjórn­mála­fræði við Há­skólann á Akur­eyri, segir að „al­vöru skíta­veður“ geti að líkindum helst haft á­hrif á að eldra fólk fari síður að kjósa.

„Ef við gefum okkur að eitt­hvað sé til í þeirri til­gátu væru það Píratar og Við­reisn sem myndu síst tapa á því. Á hinn bóginn eiga þeir flokkar mest hjá yngstu hópunum sem skila sér verst á kjör­stað hvort eð er,“ segir Grétar Þór.

Ólafur Þ. Harðar­son, stjórn­mála­fræði­prófessor og helsti greinandi RÚV á kosninga­nótt, bendir á að rann­sókn hafi verið gerð um veður og kjör­sókn í borgar­stjórnar­kosningum í Reykja­vík. „Mig minnir að niður­staðan hafi orðið sú að Sjálf­stæðis­menn fengju heldur meira fylgi í góðu veðri á kjör­dag,“ segir Ólafur.

Hann bendir á að boðað ill­viðri næsta laugar­dag skipti kannski eitt­hvað minna máli nú þar sem mun fleiri kjósi nú utan kjör­fundar er áður.

„Fjöl­miðlar ættu reyndar að hvetja fólk til að kjósa utan kjör­fundar ef veður­spáin fyrir kjör­dag verður á­fram skelfi­leg,“ segir Ólafur Þ. Harðar­son.

Ólafur Þ. Harðarson hvetur fólk til að kjósa utan kjörstaðar, einkum ef horfir í að illviðrisspá muni rætast