Dómsátt var gerð í máli séra Skírnis Garðarssonar gegn Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, og Biskupsstofu, í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

„Eftir að aðalmeðferð málsins lauk í gær, náðist sátt í málinu og það var leyst,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður Skírnis, í samtali við Fréttablaðið. „Efni dómsáttarinnar er trúnaðarmál og ég get ekki sagt neitt meira um það,“ segir Sigurður Kári.

Skírnir stefndi Agnesi og Þjóð­kirkjunni vegna þjónustu­loka hans sem sóknar­prests hjá Lága­fells­sókn í Mos­fells­bæ og síðar sem héraðs­prests.

Skírni var til­kynnt um þjónustu­lok eftir að hann sagði for­stjóra Heil­brigðis­stofnunar Vest­fjarða frá afskiptum sínum af konu í bak­varða­sveit sem grunuð var um að villa á sér heimildir og sagði frá málinu í fjölmiðlum.

Greint var frá því á vef Kirkjunnar að þjónustu Skírnis væri ekki lengur óskað. Aðspurð fyrir héraðsdómi í gær, hvort það væri almennt verklag kirkjunnar við þjónustulok starfsfólks, sagði Agnes að Skírnir hefði sjálfur komið fram í fjölmiðlum.

„Mér líður mjög vel með niðurstöðuna en ég mun ekki tjá mig neitt um hana enda er samkomulag um það,“ sagði Skírnir í samtali við Fréttablaðið.