Dómsátt var gerð í máli séra Skírnis Garðarssonar gegn Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, og Biskupsstofu, í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
„Eftir að aðalmeðferð málsins lauk í gær, náðist sátt í málinu og það var leyst,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður Skírnis, í samtali við Fréttablaðið. „Efni dómsáttarinnar er trúnaðarmál og ég get ekki sagt neitt meira um það,“ segir Sigurður Kári.
Skírnir stefndi Agnesi og Þjóðkirkjunni vegna þjónustuloka hans sem sóknarprests hjá Lágafellssókn í Mosfellsbæ og síðar sem héraðsprests.
Skírni var tilkynnt um þjónustulok eftir að hann sagði forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða frá afskiptum sínum af konu í bakvarðasveit sem grunuð var um að villa á sér heimildir og sagði frá málinu í fjölmiðlum.
Greint var frá því á vef Kirkjunnar að þjónustu Skírnis væri ekki lengur óskað. Aðspurð fyrir héraðsdómi í gær, hvort það væri almennt verklag kirkjunnar við þjónustulok starfsfólks, sagði Agnes að Skírnir hefði sjálfur komið fram í fjölmiðlum.
„Mér líður mjög vel með niðurstöðuna en ég mun ekki tjá mig neitt um hana enda er samkomulag um það,“ sagði Skírnir í samtali við Fréttablaðið.