Meira en 3600 börn í Þýskalandi voru beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu kaþólskra presta þar í landi á árunum 1946 til 2014. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, sem unnin var af hálfu kaþólsku kirkjunnar, og var nýverið lekið til fjölmiðla.

Skýrslan var unnin af þremur háskólum í Þýskalandi að beiðni kaþólsku kirkjunnar og átti að birtast síðar í september. Þýski fjölmiðilinn Spiegel birti efni skýrslunnar á vef sínum fyrr í dag.

Talsmaður kaþólsku kirkjunnar í Þýskalandi segir mikla skelfingu vera innan kirkjunnar þar í landi vegna niðurstöðu rannsóknarinnar sem leiddi í ljós að 1670 prestar hefðu brotið kynferðislega á 3.677 börnum á þessum tæplega 70 árum. 

Einungis 38 prósent þeirra hafa þurft að svara fyrir brotin og langflestir fengu minniháttar refsingar. Skýrslan er mjög umfangsmikil og unnin upp úr 38 þúsund skjölum. Skýrsluhöfundar segja brotin þó mögulega fleiri því hluta af skjölunum gæti hafa verið eytt. 

Kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar hafa verið ofarlega í umræðunni síðustu ár. Frans páfi hefur tekið nokkuð harkalega á þeim og fordæmdi nýverið alla þá presta sem framið hafa slík brot.