Hægri þjóðernisflokkurinn Annar kostur fyrir Þýskaland (AfD) kaus í dag um hvort flokkurinn ætti að beita sér fyrir því að Þýskaland myndi yfirgefa Evrópusambandið líkt og Bretar munu gera í mars á þessu ári. Um er að ræða fyrstu slíka kosningu innan stjórnmálaflokks í Þýskalandi. Á breska miðlinum Guardian er málið kallað „Dexit“ líkt og Brexit.

Flokkurinn hittist í borginni Riesa um helgina til að undirbúa kosningar til Evrópuþingsins sem fara fram í maí á þessu ári. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu flokksins fyrir tilvonandi kosningar til Evrópuþingsins er þess krafist að Þýskaland yfir sambandið um leið verði það ekki mótað upp á nýtt samkvæmt áherslum flokksins. Stefnuyfirlýsingin var samþykkt á fundi flokksins um helgina.

Þá var einnig kosið um að leggja niður Evrópuþingið. En meðlimir flokksins eru þó einmitt núna að hefja kosningabaráttu til að fá að vera meðlimir þingsins fyrir hönd flokksins.

Flokkurinn, líkt og aðrir þjóðernissinnaðir stjórnmálaflokkar, segja að of mikið vald hafi verið fært til Brussel og að Evrópusambandið sé orðið miklu stærra og meira en það hafi átt að vera.

„Við þurfum ekki að leggja niður Evrópusambandið, heldur að ná því aftur að skynsamlegum uppruna sínum,“ sagði Alexander Gauland einn leiðtoga AfD á fundi flokksins í dag.

Greint er frá á Guardian.