„Eðlilega eru menn ekki sáttir en fyrirtækið er í fullum rétti til að gera þetta og það er bara eðlilegt að einhverjum mislíki það,“ segir Árni Sverrisson, framkvæmdastjóri Félags skipstjórnarmanna, vegna áhafnar flutningaskipsins Selfoss sem ekki fékk að stíga á land í Reykjavík eftir siglingu til Norður-Ameríku.Selfoss lagði að bryggju í Sundahöfn á fimmtudagsmorgun eftir sextán daga siglingu.

Skipið fór úr höfn síðdegis í gær í ferð umhverfis landið áður en þriggja vikna túr áhafnarinnar lýkur endanlega í Reykjavík á þriðjudaginn. Þá fá skipverjar fyrst að stíga frá borði. Ástæðan er reglur vegna heimsfaraldursins. Finnst sumum súrt í broti að vera við landfestar í Reykjavík án þess að fá að hitta ástvini sína í borginni. „Ég var búinn að heyra af því að það væru einhverjir um borð í Selfossi sem væru ósáttir við þetta. Menn eru vanir því að fá að fara heim og svo allt í einu er það bara bannað en stjórnendur fyrirtækisins gera þetta ekki bara að gamni sínu,“ segir Árni Sverrisson.

Að sögn Árna hafa verið í gildi verklagsreglur í flotanum hér eins og um allan heim til að hindra útbreiðslu Covid.Árni nefnir sem dæmi áhafnir fiskiskipa sem séu um borð í þrjár vikur án þess að fara frá borði þegar afla er landað milli veiðiferða. Álíka reglur hafi verið á fragtskipum áður en byrjað hafi verið að slaka á þeim og heimila mönnum að fara í land. „Svo skellur þessi bylgja á að nýju og Eimskip setur reglurnar á aftur. Langflestir sýna þessu skilning þótt þeir séu ekkert ánægðir,“ segir Árni sem kveðst telja eðlilegt að mönnum sé umbunað fyrir að vera beygðir undir þessar reglur.

Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Eimskips, segir félagið vissulega með strangar reglur vegna Covid. Menn þurfi að vera prófaðir áður en þeir koma um borð og leitast sé við að senda viðgerðaraðila og annan mannskap sem þarf að koma um borð í hraðpróf.

„Við viljum ekki að þeir fari heim til fjölskyldunnar og næli sér í eitthvað þar og komi svo með það um borð í skipið. Þetta snýr náttúrlega allt að öryggi áhafnanna og við viljum ekki að áhafnarmeðlimir verði veikir úti á hafi,“ segir Edda. Aðspurð kveðst Edda ekki vita hvort áhafnirnar séu ósáttar. „Þetta eru náttúrlega strangar reglur og auðvitað kemur eflaust þreyta í fólk eins og hjá öllum öðrum,“ segir Edda Rut Björnsdóttir.