Fyrsti fundur undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar Alþingis hefur verið boðaður en níu sitja í nefndinni, tilnefndir af þingflokkum eftir þingstyrk.
Fyrir nefndinni liggur að undirbúa það erfiða verkefni Alþingis að ráða fram úr þeirri flækju sem upp er komin vegna endurtalningar í Norðvesturkjördæmi og áhalda um löglega meðferð kjörgagna í kjördæminu. Alþingis bíður svo það verkefni að skera úr um hvort allir þingmenn sem landskjörstjórn veitti kjörbréf í dag, séu löglega kjörnir Alþingismenn.
Svo ber nú við að flokkarnir hafa tilnefnt sex konur til setu í nefndinni og þrjá karla. Verði nefndin þannig skipuð fer það í bága við nýsamþykkt ákvæði í þingsköpum Alþingis.
Nefndin er þannig skipuð að Sjálfstæðisflokkurinn á í henni þrjá fulltrúa, Birgi Ármannsson, Vilhjálm Árnason og Diljá Mist Einarsdóttur. Framsóknarflokkur á tvo fulltrúa, Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur og Líneik Önnu Sævarsdóttur. Svandís Svavarsdóttir situr í nefndinni fyrir Vinstri græn, Björn Leví Gunnarsson fyrir Pírata, Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrir Samfylkinguna og Inga Sæland fyrir Flokk fólksins.
Tveir flokkar eiga rétt á áheyrnarfulltrúa í nefndinni. Viðreisn hefur tilnefnt Hönnu Katrínu Friðriksson sem áheyrnarfulltrúa en óvíst er hvort Miðflokkurinn hefur tilnefnt áheyrnarfulltrúa.

Breyting á þingskapalögum Alþingis sem samþykkt var í maí skylda Alþingi að skipa þannig í nefndir að kynjahlutföll séu sem jöfnust. Á þetta bæði við um nefndir utan þings sem kosnar eru af Alþingi og um nefndir þingsins. Um nefndir þingsins má þó taka mið af kynjahlutföllum þingsins og einstakra þingflokka.
Með lagabreytingunni var meðal annars gerð breyting á 82. gr. sem fjallar um kosningu í nefndir á grundvellli þingstyrks flokkanna, líkt og við á um kosningu í kjörbréfanefnd. Við ákvæðið var bætt efnisgreininni:
„Við kosningu skal þess gætt að hlutfall kvenna og karla sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.“
Eins og komið hefur fram er sá háttur oftast hafður á að undirbúningsnefndin sem undirbýr störf kjörbréfanefndar áður en þing er sett, er skipuð sömu fulltrúum og tilnefndir eru og hina eiginlegu kjörbréfanefnd á þingsetningardegi.
Ekki náðist í Willum Þór Þórsson, starfandi forseta þingsins, við vinnslu fréttarinnar.