Fyrsti fundur undir­búnings­nefndar kjör­bréfa­nefndar Al­þingis hefur verið boðaður en níu sitja í nefndinni, til­nefndir af þing­flokkum eftir þing­styrk.

Fyrir nefndinni liggur að undirbúa það erfiða verkefni Alþingis að ráða fram úr þeirri flækju sem upp er komin vegna endurtalningar í Norðvesturkjördæmi og áhalda um löglega meðferð kjörgagna í kjördæminu. Alþingis bíður svo það verkefni að skera úr um hvort allir þingmenn sem landskjörstjórn veitti kjörbréf í dag, séu löglega kjörnir Alþingismenn.

Svo ber nú við að flokkarnir hafa til­nefnt sex konur til setu í nefndinni og þrjá karla. Verði nefndin þannig skipuð fer það í bága við ný­sam­þykkt á­kvæði í þing­sköpum Al­þingis.

Nefndin er þannig skipuð að Sjálf­stæðis­flokkurinn á í henni þrjá full­trúa, Birgi Ár­manns­son, Vil­hjálm Árna­son og Diljá Mist Einars­dóttur. Fram­sóknar­flokkur á tvo full­trúa, Haf­dísi Hrönn Haf­steins­dóttur og Líneik Önnu Sæ­vars­dóttur. Svan­dís Svavars­dóttir situr í nefndinni fyrir Vinstri græn, Björn Leví Gunnars­son fyrir Pírata, Þórunn Svein­bjarnar­dóttir fyrir Sam­fylkinguna og Inga Sæ­land fyrir Flokk fólksins.

Tveir flokkar eiga rétt á á­heyrnar­full­trúa í nefndinni. Við­reisn hefur til­nefnt Hönnu Katrínu Frið­riks­son sem á­heyrnar­full­trúa en ó­víst er hvort Mið­flokkurinn hefur til­nefnt á­heyrnar­full­trúa.

Aðeins þrír karlar sitja í nefndinni. Tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokks og fulltrúi Pírata.
Fréttablaðið/Samsett mynd.

Breyting á þing­skapa­lögum Al­þingis sem sam­þykkt var í maí skylda Al­þingi að skipa þannig í nefndir að kynja­hlut­föll séu sem jöfnust. Á þetta bæði við um nefndir utan þings sem kosnar eru af Al­þingi og um nefndir þingsins. Um nefndir þingsins má þó taka mið af kynja­hlut­föllum þingsins og ein­stakra þing­flokka.

Með laga­breytingunni var meðal annars gerð breyting á 82. gr. sem fjallar um kosningu í nefndir á grund­vellli þing­styrks flokkanna, líkt og við á um kosningu í kjör­bréfa­nefnd. Við á­kvæðið var bætt efnis­greininni:

„Við kosningu skal þess gætt að hlut­fall kvenna og karla sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá full­trúa er að ræða.“

Eins og komið hefur fram er sá háttur oftast hafður á að undir­búnings­nefndin sem undir­býr störf kjör­bréfa­nefndar áður en þing er sett, er skipuð sömu full­trúum og til­nefndir eru og hina eigin­legu kjör­bréfa­nefnd á þing­setningar­degi.
Ekki náðist í Willum Þór Þórs­son, starfandi for­seta þingsins, við vinnslu fréttarinnar.