Hefja þarf umsóknarferli íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu að nýju eftir að tveir umsækjendur drógu umsókn sína til baka. Þetta staðfestir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður á Evrópuráðsþinginu, í samtali við RÚV.

Ró­bert Spanó, forseti MDE, er núverandi dómari Íslands við dóminn. Róbert var skipaður í embættið 1. nóv­em­ber 2013 en kjörtímabil hans rennur út þann 31. október og þarf Ísland því að tilnefna að nýju en það er Evrópuráðið sem kýs dómara.

Staða dómara var auglýst í desember í fyrra og bárust þrjár umsóknir. Um stöðuna sóttu Jónas Þór Guðmundsson, hæstaréttarlögmaður, Oddný Mjöll Arnardóttir, landsréttardómari og rannsóknarprófessor og Stefán Geir Þórisson, hæstaréttarlögmaður. Þau voru metin hæf af fimm manna nefnd sem forsætisráðherra skipaði til að fara yfir umsóknirnar og voru í kjölfarið tilnefnd af íslenska ríkinu sem dómaraefni.

Haft er eftir Þórhildi Sunnu í Frétt RÚV að tveir umsækjenda hafi dregið umóknir sínar til baka eftir viðtöl hjá undirnefnd Evrópuráðsþingsins í Strassborg.

Kjósa átti nýjan dómara frá Íslandi í þessari viku, en nú þarf að hefja umsóknarferlið að nýju. Í frétt RÚV um málið segir að ekki verði hægt að skipa í embættið fyrr en í fyrsta lagi í október á þessu ári.