Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir að skipunarmál Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra menningarmála, í stöðu þjóðminjavarðar komi ofan í fleiri mál sem hana varði og valdið hafi usla.

„Lilja er farin að ganga allverulega á sitt pólitíska kapítal með endurteknum skipunum fram hjá þeirri reglu að auglýsa beri opinberar stöður,“ segir Eiríkur.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, staðfesti í samtali við Fréttablaðið í gær að á dagskrá fundar nefndarinnar næsta mánudag væri kominn liður um ráðningar embættismanna og 36. grein starfsmannalaganna. Augljóst er að ólgan í kringum skipun þjóðminjavarðar er kveikja þeirrar umræðu.

Félag fornleifafræðinga hefur sent umboðsmanni Alþingis kvörtun vegna ákvörðunar Lilju.

Bætist kvörtunin ofan á hörð viðbrögð úr ýmsum áttum en Lilja hefur varið ákvörðun sína með hæfi Hörpu Þórsdóttur, sem hún skipaði.

Eiríkur Bergmann segir erfitt að segja til um hvort mælirinn sé orðinn fullur.

„Ég held að Lilja sé ekki komin í þannig öngstræti að hún þurfi að hrökklast undan, en þetta mál hjálpar henni ekki í því að tryggja sig í sessi,“ segir Eiríkur.

„Lilja er augljóslega að stilla sér upp svolítið utan við helstu forystu í ríkisstjórninni, hvort sem það er viljandi eða ómeðvitað. Er það til marks um að hún sé að marka sér sérstaklega stöðu? Maður veit það ekki,“ segir Eiríkur.

Þeir sem hafa borið blak af ákvörðun Lilju, þar á meðal samráðherrar í ríkisstjórn, benda á að heimild sé í lögum til að færa til embættismenn samkvæmt 36. greininni. Margir telja að undanþáguákvæðið eigi ekki við í þessu máli.

„Ég held að andi þessara laga sé nokkur skýr. Stöður sem þessar á að auglýsa,“ segir Eiríkur.

Prófessorinn bendir á að skipan þjóðminjavarðar sé ekki hefðbundin tilfærsla líkt og varði sem dæmi flutning fólks milli ráðuneyta.

„Þetta er meiri háttar leiðandi staða í íslenskri akademíu og um slíkar stöður gilda almennar reglur. Mér finnst ekki fullnægjandi að rökstyðja svona ákvörðun með því einu að viðkomandi sé hæf,“ segir Eiríkur.

„Þetta er ekki spurning um hvort manneskjan sé hæf heldur jafna möguleika fólks á að bjóða fram krafta og vera metið að verðleikum. Aðrir eru rændir möguleika á starfinu og þar liggur vandinn. Það er aukaatriði hvort sú sem var skipuð sé hæf.“

Stundum má líta þannig á mál að átök um ákvarðanir ráðherra séu heilbrigðismerki, að sögn Eiríks. Um það hvort hætta sé á að Lilja missi traust leiðandi fólks innan menningargeirans sem ráðherra segir Eiríkur erfitt að meta það. Það þurfi ekki að vera slæmt fyrir ráðherra að eiga í ágreiningi við tilteknar stéttir, því almenningur ráði afdrifum stjórnmálamanna en ekki ráðandi stéttir á hverju sviði fyrir sig.