Síðustu tvær vikurnar hefur verið brotist inn á þrjú heimili á höfuðborgarsvæðinu þar sem farið var inn um glugga í eða við svefnherbergi, leitað að skartgripum eða reiðufé og síðan vettvangur yfirgefinn. Lögregla telur líklegt að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða og hvetur fólk til að vera á varðbergi og láta vita af grunsamlegum mannaferðum.

Brotist var inn á eitt heimili í Mosfellsbæ og tvö í Grafarvogi. Þriðja innbrotið var framið í morgun. Þá kom íbúi að innbrotsþjófnum, sem þá forðaði sér. Að sögn lögreglu gat íbúi ekki greint frá útliti þjófsins þar sem illa sást til hans. Engin lýsing er því til á þjófnum.

Erlendir brotahópar á bak við innbrotin

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að aðferð innbrotsþjófanna svipi mjög til þeirra sem erlendir brotahópar hafi haft hér á landi. Hóparnir komi til landsins gagngert til að brjótast inn á þessum árstíma. Þeir fari helst inn í einbýlishús sem eru á jaðarsvæðum, hús sem staðsett eru við göngustíga þar sem ekki sést inn úr öðrum húsum.

Innbrotsþjófarnir eru yfirleitt karlmenn og eru oftast tveir saman á ferð. Þeir fremja brot sín á virkum dögum að sögn lögreglu, þegar líklegt er að enginn sé heima.

Þeir eru yfirleitt fótgangandi, hafi með sér litla tösku eða bakpoka og noti jafnvel almenningssamgöngur til að koma sér af vettvangi, frekar en einkabíla.

Lögregla biður íbúa á höfuðborgarsvæðinu að vera vel á verði af þessu tilefni, gæta að verðmætum, læsa vel húsum sínum og láta vita um grunsamlegar mannaferðir í síma 112.