Árni Arn­þórs­son, að­stoðar­rektor Al­þjóð­lega Há­skólans í Kabúl (American Uni­versity) á­ætlar að tekist hafi að koma um 250 nem­endum hans úr landi frá því að Tali­banar rændu völdum í Afgan­istan um miðjan ágúst. Undan­farnar þrjár vikur hefur honum tekist að koma rúm­lega fimm­tíu manns úr Afgan­istan í gegnum land­leiðina og eru ýmsar á­ætlanir uppi með fram­haldið.

„Staðan hefur breyst að því leitinu til að við erum að gera þetta öðru­vísi núna. Við erum að vinna með há­skólum í öðrum löndum til að fá pláss við nem­endurna í sam­starfi við aðra há­skóla,“ segir Árni.

Aðal­lega er um þrjú ná­granna­ríki Afgan­istan að ræða en Árni vill ekki gefa upp hvaða lönd það eru ná­kvæm­lega til að vernda nem­endur sína. Að sögn hans leitar há­skólinn nú leiða til að koma nem­endum inn í há­skóla­kerfi annarra landa og út­vega þeim þannig land­vistar­leyfi.

„Þetta ferli hefur verið mjög erfitt því öll þessi lönd eru yfir­full af flótta­fólki og vilja ekki taka við fleirum í raun og veru. Við þurfum að sann­færa þessar ríkis­stjórnir um það að nem­endur okkar muni ekki verða byrði á þeirra þjóð­fé­lag. Þannig við höfum þurft að sýna fram á það að við erum með skóla­styrki fyrir þessa krakka og fram­hald á þeirra málum verði þannig að við munum borga fyrir þau, þannig það er stórt dæmi í þessu. Svo þurfum við að koma þeim á staðinn og það er ekkert hlaupið að því.“

Ekki hefur enn verið komið á reglu­legu milli­landa­flugi frá Afgan­istan og hafa Árni og kollegar hans því mest­megnis freistað þess að koma nem­endum sínum úr landi í gegnum land­leiðina.

„Við höfum komið rétt yfir fimm­tíu krökkum núna úr landi undan­farnar þrjár vikur en við höfum þurft að fara með þau land­leiðina. Það hefur reynst gífur­lega erfitt og ekki á­falla­laust og verið raun­veru­lega erfitt fyrir nem­endurna. Þau hafa dá­lítið þurft á­falla­hjálp eftir það,“ segir Árni.

Mikil hættuför

Hann lýsir ferða­laginu sem mikilli hættu­för enda þarf að ferðast í gegnum eftir­lits­stöðvar Tali­bana og landa­mæra­eftir­lit þar sem ýmis­legt getur gerst. Þá fylgir þessum leið­öngrum mikill kostnaður en há­skólinn þarf að greiða allt að þúsund dollara fyrir hvern nem­enda til mála­liðanna sem taka verk­efnið að sér. Að sögn Árna er einu hlið­stæðuna að finna í bíó­myndum.

„Það getur tekið marga klukku­tíma að bíða og vona og vera snúið við og þurfa að fara aðrar leiðir. Þegar þú ert hræddur við þessa hluti og það er ein­hver að stoppa bílinn og segja ‚Við viljum fá þínar upp­lýsingar‘ þá er fólk náttúr­lega skelfingu lostið að eitt­hvað gerist. Þannig að það hefur verið mjög erfitt raun­veru­lega fyrir krakkana sem hafa gert þetta að komast frá þessu á­falla­laust.“

Hingað til hafa allir nem­endurnir sem lagt hafa út í slíkar svaðil­farir komist heilir á húfi í gegn. Þegar komið er á á­fanga­stað tekur þó annar veru­leiki við sem er síður en svo ein­faldur.

„Þá tekur náttúr­lega við hinn kaldi raun­veru­leiki að ef þú horfir til baka að þá ertu að gera þér grein fyrir því að þú hefur skilið þína fjöl­skyldu eftir í á­kveðinni hættu. Það getur verið að þú munir aldrei sjá for­eldra þína eða litlu syst­kini þín eða vini þína aftur og aldrei geta komist til þíns lands. Ef þú horfir fram á veginn þá er ó­vissan svo mikil, hvað gerist með mig sem ein­stak­ling, hvar mun ég verða, hvað mun gerast með námið mitt, hvað mun gerast með lífið mitt? Þetta er náttúr­lega ofsa­lega mikið sem ungir krakkar rétt um tví­tugt eru að taka inn á sig,“ segir Árni.

Eitt af verk­efnum Árna, sem hann stundar nú í gegnum fjar­vinnu líkt og önnur störf hans fyrir há­skólann, er að út­vega nem­endunum á­falla­hjálp eftir allt sem á undan hefur gengið. Hann er t.d. í góðu sam­bandi við styrktar­aðila hjá há­skóla í New York sem bjóða nem­endunum upp á and­legan stuðning auk þess sem hann vinnur að því að senda þrjá af starfs­mönnum há­skólans á nokkurra af þeim stöðum þar sem nem­endurnir hafa komið sér fyrir utan Afgan­istans.

„Af því að mörg af þeim þegar þau koma á staðinn, þau hafa kannski ein föt til skiptanna. Það þarf kaupa fatnað, það þarf að koma þeim fyrir, það þarf að hjálpa þeim að koma sér af stað. Það tekur líka á tölu­vert. Það er svo margt sem að þarf að gera í raun og veru til þess að starta lífinu og svo hjálpa þeim að komast á­fram í gegnum það.“

Send til baka af Talibönum

Að sögn Árna er alltaf tölu­verð hætta fólgin í því að senda nem­endur úr landi á þennan hátt og er nem­endunum gert grein fyrir því áður en lagt er af stað. Sumir hafa raunar kosið að fara ekki, sem Árni segist skilja.

„Náttúr­lega verstu niður­stöðurnar þarf ekkert að skýra út en það getur komið fyrir að eitt­hvað stoppar eða eitt­hvað gerist sem gæti orðið hættu­legt fyrir nem­endurna, það er náttúr­lega það sem maður vill ekki að gerist. Þannig að það er dá­lítið erfitt stundum að gera það. Til þessa hefur ekkert gerst en sér­stak­lega með þessa land­leið þá er maður eigin­lega með í maganum þangað til að krakkarnir eru komnir yfir landa­mærin.“

Einn hópur á vegum há­skólans lenti í því að vera sendur til baka af Tali­bönum en Árni segir þó að betur hafi farið en á horfðist.

„Þeir gerðu ekkert meira heldur en það og sögðu bara ‚Þið eigið ekki að vera að gera þetta og farið heim til ykkar‘. Þá var bara farin önnur leið og það var leist án mikilla vanda­mála, en það er náttúr­lega ekkert auð­velt að lenda í því.“

Erfitt að endurnýja vegabréf

Ýmis vanda­mál hafa komið upp við björgunar­að­gerðirnar, til dæmis þegar kemur að því að út­vega vega­bréfs­á­ritanir. Sumir af nem­endum og starfs­mönnum Árna hafa rekið sig á það að vera með út­runnin vega­bréf eða vega­bréf sem eru við það að renna út. Einn af starfs­mönnum há­skólans, sem glímdi við þetta vanda­mál, greip til þess ráðs að reyna að endur­nýja vega­bréfið sitt í gegnum sendi­ráð Afgan­istans í ná­granna­ríki. Að sögn Árna hafa Tali­banar enn ekki farið út í það að skipa aðra í em­bætti í sendi­ráðum Afgan­istan á er­lendri grundu sem starfa þá enn í um­boði gömlu stjórnarinnar.

„Hann setti vega­bréfið sitt í hendur á ein­hverjum í gær, borgaði honum 300 dollara, nú mun sá aðili fara yfir landa­mærin og fara í sendi­ráð Afgan­istan þar og fá vega­bréfið endur­nýjað þar. Við erum búin að heyra að það sé hægt. Þannig að við þurfum að bíða í viku og ætlum að sjá hvort að þetta virki. Ef það virkar þá erum við með svona 50-60 nem­endur með út­runnin vega­bréf eða vega­bréf sem eru að verða út­runnin, þá ætlum við að bjóða þeim krökkum að taka sénsinn á því að láta okkur fá vega­bréfin sín eða láta okkar aðila fá þau til að koma þeim í gegn,“ segir Árni.

Alls ó­víst er hvernig þetta muni ganga fyrir sig en Árni segir Af­ganana vera mjög út­sjónar­sama þegar kemur að því að finna nýjar leiðir til að vinna í kringum kerfið.

„Af­ganar eru náttúr­lega mjög klárir að vinna í gegnum kerfið því það hefur bara verið þeirra líf í ára­tugi, í raun og veru. Þeir eru mjög út­sjónar­samir og koma oft með hug­myndir og mögu­leika sem við, þessi vest­rænu, pælum ekkert í eða höfum ekkert hugsað um.“

Ljóst er að mikil vinna er enn fyrir stafni en há­skólinn stendur meðal annars frammi fyrir því að þurfa að finna sér nýjar heima­stöðvar til að skrá starf­semi sína ef honum skyldi verða út­hýst opin­ber­lega frá Afgan­istan þar sem hann er enn skráður sem mennta­stofnun. Á­lagið er þó blessunar­lega ekki enn þá jafn sligandi og á fyrstu dögum valda­tökunnar, þegar Árni var vakinn og sofinn yfir á­standinu.

„Alltaf eitt­hvað að gerast. Þetta eru ekki lengur tuttugu stundir á dag, þetta er komið niður í fjór­tán,“ segir Árni og hlær.