Helstu áherslumál í komandi sveitarstjórnarkosningum verða fjármál sveitarfélaga og skipulagsmál. Þetta segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Línur eru nú að skýrast í sveitarfélögum landsins, bæði hvað varðar fyrirkomulag við uppröðun og hverjir bjóði sig áfram til trúnaðarstarfa.

Ásthildur er ópólitískur bæjarstjóri og segir að hún hyggist ekki sjálf fara í flokksframboð fyrir norðan. Henni líki starfið og bærinn vel og myndi þiggja bæjarstjórasætið áfram ef það byðist að loknum kosningum.

„Ég hef verið framkvæmdastjóri þessa sveitarfélags í fjögur ár og alls verið tólf ár bæjarstjóri en aldrei verið í framboði,“ segir hún.

Skipulagsmál hafa verið bitbein bæði í Reykjavík og á Akureyri. Dagur B. Eggertsson spáir hörðum slag um borgina og að mati Ásthildar munu helstu mál kosninganna 14. maí næstkomandi hverfast áfram um skipulagsmál, auk fjármála.

„Þessi mál eru mjög áberandi hjá öllum sveitarfélögum. Það er rosa vöxtur – meiri vöxtur en um áratuga skeið,“ segir Ásthildur.