Setja þarf skotfélögum á Álfsnesi mun strangari skorður og veita aðeins starfsleyfi til tveggja ára, segir í umsögn skipulagsfulltrúans í Reykjavík vegna fyrirhugaðrar endurnýjunar starfsleyfis Skotfélags Reykjavíkur.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur spurði skipulagsfulltrúa hvort breytingar á skipulagi hindruðu að endurnýja mætti starfsleyfi Skotfélags Reykjavíkur til tólf ára.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu sýndi rannsókn á svæðum Skotfélags Reykjavíkur og Skotveiðifélags Reykjavíkur að 46 prósent hagla sem féllu við svæðið voru úr blýi. Heilbrigðiseftirlit og skotfélögin hafa hins vegar áður sagt notkun hinna mengandi blýhagla vera nánast enga.

Bendir skipulagsfulltrúinn á að Skotfélag Reykjavíkur hafi haft svæðið til tímabundinna afnota og íbúar í nágrenninu árum saman látið í ljós óánægju. Setja verði strangari skilyrði um starfsemina, svo sem opnunartíma og notkun blýhagla. Samhliða verði að kanna til hlítar að finna varanlega aðstöðu undir skotæfingar annars staðar.

„Skilyrt verði að opnunartími (heimilaður skottími) verði skertur talsvert umfram það sem er í dag, þannig að ekki hljótist ónæði af og tekið sé fram að misbeiting á því geti valdið riftun á tímabundnu starfsleyfi,“ segir skipulagsfulltrúi. Í ljósi sjónarmiða um umhverfismengun og neikvæð áhrif á vistkerfið verði blýnotkun bönnuð.

„Skilyrt verði að svæðið sé vaktað með reglubundnum hætti af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur eða óháðum aðila og þá jafnframt með tilliti til hljóðmengunar og opnunartíma,“ leggur skipulagsfulltrúi enn fremur áherslu á.