„Við erum búin að vera með teymi í COVID-tengdum verkefnum frá því að faraldurinn skall á,“ segir Guðjón Vilhjálmsson, forstöðumaður heilbrigðislausna hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Origo.

Fyrirtækið hannaði í samstarfi við Embætti landlæknis kerfi sem sér um utanumhald varðandi bólusetningu við COVID-19.

Kerfið myndar gagnagrunn að lausnum við bólusetningar og heldur meðal annars utan um fólk í forgangshópi og boðar í bólusetningu með SMS-skilaboðum jafnóðum og bóluefni berst til landsins. Þá eru allar bólusetningar skráðar í kerfið þar sem haldið er utan um það hverjir hafa fengið bólusetningu.

„Við höfðum áður þróað gagnagrunn fyrir allar bólusetningar á Íslandi og þetta kerfi tengist því verkefni en það sem snýr að skipulagningu COVID-19 bólusetninganna og boðun þurftum við að þróa alveg frá grunni,“ segir Guðjón.

Að sögn Guðjóns hefur Origo einnig unnið náið með Embætti landlæknis að sýnatökum bæði á landamærunum og á heilbrigðisstofnunum. Sú þekking hafi einnig nýst vel við bólusetningarkerfið.

Guðjón segir ánægjulegt að fleiri séu að átta sig á tækifærum varðandi tækni í faraldrinum, áður fyrr hefði líklega verið farin önnur leið í skipulagningu bólusetninga. „Þá hefði líklega verið sett fólk í að hringja út og gera allt og græja en með því að nýta tæknina með þessum hætti er hægt að straumlínulaga þetta svo gríðarlega,“ segir Guðjón.

Guðjón segir að ekki hafi komið upp vandamál tengdum skipulagningu líkt og víða um heim.

Í SMS-skilaboðunum sem send eru þeim sem boðaðir eru í bólusetningu er strikamerki sem skannað er á bólusetningarstað, þannig er fólk skráð á einu augnabliki.

„Víða erlendis þarf fólk að gefa upp nafn og kennitölu og svo þarf að leita að því í kerfinu. Hver skráning tekur kannski eina til tvær mínútur. Það var mikill fókus á það hjá okkur að gera skráninguna á bólusetningarstað eins einfalda og mögulegt er,“ segir Guðjón

Þá minnir Guðjón á mikilvægi þess að hver og einn sé sem stystan tíma á bólusetningarstað. Í þessari viku var stefnt á að bólusetja um 25 þúsund manns, ein auka mínúta á hvern einstakling á bólusetningarstað sé því fljót að telja klukkutíma.

Guðjón segir kerfið hafa reynst afar vel en að það geti reynst flókið að halda utan ýmsa hluti.

„Fólk er náttúrulega að mæta í fyrri og seinni sprautu og það er búið að búa til forgangshópa. Svo koma upp dæmi þar sem einhver mætir ekki eða má ekki fá ákveðið bóluefni vegna undirliggjandi sjúkdóms og þá þarf að eiga sérstaklega við það,“ segir Guðjón.Tekist hafi afar vel að halda utan um allt saman.

„Við höfum ekki lent í vandamálum tengdum skipulagningu eins og eru að koma upp víða um heim.“