Lögreglan á Suðurnesjum þurfti í nótt að hafa afskipti af nokkrum unglingum sem gerðu það að leik sínum að trufla umferð í Keflavík með því að fara á hlaupahjólum fyrir bíla sem voru á ferðinni. Auk þessa máttu þeir ekki vera úti að nóttu til vegna aldurs.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að unglingunum hafi verið veitt tiltal, ekið til síns heima og að rætt verði við forráðamenn þeirra.

Er þetta í annað sinn á stuttum tíma sem lögregla þarf að hafa afskipti af ungmennum á hlaupahjólum. Í fyrrakvöld skárust lögregluþjónar einnig í leikinn þegar unglingar iðkuðu að hlaupa fyrir bíla á slíkum hjólum í Keflavík.

Þá voru tveir tíu ára strákar staðnir að því að reiða hvor annan hjálmlausir á vespu, að sögn lögreglu.

Nokkrir voru kærðir fyrir of hraðan akstur um helgina og ók sá sem greiðast fór á 142 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Þá voru höfð afskipti af fáeinum sem grunaðir voru um vímuefnaakstur.