Ísland raðast nú í sautjánda sæti á lista Transparency International (TI) yfir spillingu og spillingarvitund í 180 ríkjum. Í fyrra var Ísland í ellefta sæti og fellur niður um sex sæti milli ára.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag hvað ríkisstjórnin hugðist gera varðandi vaxandi spillingu í landinu.

„Hæstvirtur fjármálaráðherra hefur áður svarað mér að hann hafi ekki áhyggjur af spillingu á Íslandi og í íslensku viðskiptalífi, bæði í kjölfar þess að Ísland lenti á gráum lista og þegar Samherja skjölin birtust. Það eru út af fyrir sig mjög skýr skilaboð. Hann virðist líta á mál sem koma upp sem tilfallandi en ekki kerfisvanda sem stjórnvöld eiga að taka á. Er hæstvirtur forsætisráðherra jafn áhyggjulaus nú og þegar ég spurði hann fyrir einu ári eða finnst honum tilefni til að taka mið af ábendingunum og ef svo er, hvað hyggst ríkisstjórnin gera?,“ spurði Logi.

Logi sagði Tran­sparency In­ternati­onal aug­ljós­lega hafa áhyggj­ur af stöðunni og þró­un­inni síðustu ár.

Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra sagði dæmin sem Logi nefndi ekki til stuðnings þess að það þurfi að hafa miklar áhyggjur af spillingu á Íslandi. Það færi einnig eftir því hvernig litið væri á lista TI, en Ísland væri meðal þeirra þjóða í heiminum þar sem spilling er sem minnst.

„Dæmin eru nú heldur léttvæg, að kalla Landsréttarmálið spillingu þegar öll gögn eru opin, þegar Alþingi kemur að málinu og tekur síðustu ákvörðuninni, þegar embættismenn mæta fyrir nefndasvið og færa rök fyrir tillögu ráðherrans, þegar hér í þingsal eru greidd atkvæði fyrir opnum tjöldum. Að kalla afgreiðslu slíkra mála spillingu er auðvitað með miklum ólíkindum.

Skiptir máli hvernig niðurstaðan er skoðuð

„Hérna skiptir dálítið máli hvort menn kjósa að líta svo á að glasið sé hálftómt eða að það sé hálffullt. Þegar við skoðum þessa niðurstöðu með svona aðeins jákvæðara hugarfari heldur en hæstvirtum þingmanni virðist vera tamt að gera þá má sjá að Ísland skipað sér í flokk með þeim þjóðum í heiminum þar sem spilling er minnst," segir Bjarni.

Hann segir jafnframt sjálfsagt að skoða það hvers vegna Ísland skori ekki jafnhátt og hin Norðurlöndin.

„Mér finnst sjálfsagt að velta því upp hvað við gætum gert til þess að bregðast við þeirri stöðu. Eitt af því sem er áberandi í skýrslu sem þessari og það sama á við um GRECO úttektir, er að það eru ekki endilega dæmin um spillingarmál sem menn hafa í höndunum heldur tilfinningin fyrir því að það grasseri einhvers staðar spilling. Einhver svona óljós tilfinning og oft gerist það nú þegar formenn í stjórnmálaflokkum koma upp og tala einmitt inn í þá tilfinningu að hún versnar," bætti Bjarni við.