Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, segir að það skipti miklu máli hversu mikið gerendur kynferðisofbeldis axli ábyrgð í sínum málum fyrir afdrif þeirra og mála þeirra. Þá segir hún mikilvægt að þekkja söguna.
Gyða Margrét var með erindi á Jafnréttidögum HÍ í vikunni en þar var það rætt hvert umræða um ofbeldi, þöggun og slaufunarmenningu stefnir, hvers konar ákall um breytingar er að finna í umræðu um það og hvað þurfi að breytast í íslensku samfélagi.
„Ég talaði á viðburðinum um það hvernig við erum að skapa nýtt viðmið, eða nýtt norm og beitti hugtaki frá Hildi Fjólu Antonsdóttur, réttarfélagsfræðingi, um samfellu óréttlætis,“ segir Gyða Margrét og á þá við það þegar þolandi er beittur kynferðislegu ofbeldi en svo bætast við viðbrögð samfélags og almennings sem verða til þess að um er að ræða samfellu óréttlætis.
„Ég er þá að leggja til að við slaufum þessari samfellu óréttlætis,“ segir Gyða Margrét og að í nýjum veruleika, þar sem það er gert, þá verði brotaþolum ekki refsað fyrir það að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.
Hún segir að í erindi sínu hafi hún einnig farið aftur í söguna og talið upp dæmi um það hvernig samfélagið hefur áður brugðist við sögum brotaþola.
„Ég geri það því það er mikilvægt að þekkja söguna, ekki af því að við ætlum að hverfa til baka. Heldur einmitt af því að við ætlum aldrei að fara aftur,“ segir Gyða Margrét sem segir að á sama tíma og við upplifum nýtt norm þá upplifi fólk kannski fáránleika fyrri viðbragða þegar brotaþolum var refsað fyrir að hafa verið beitt kynferðisofbeldi.
„Það er gott að upplifa það.“
Holdgervingar karlmennsku sem er tengd hruninu
Í Fréttablaðinu í vikunni kom fram að mikill meirihluti, eða um 75 prósent, þeirra sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Prósents segist vera hlynnt því að þeim, sem hafa verið ásökuð um kynferðisbrot verði, verði vikið úr stjórnunarstörfum eða stjórnum fyrirtækja og félaga.
Spurð út í þetta segir Gyða Margrét að þetta komi ekkert endilega á óvart. Það tengi eflaust margir spurninguna við mál Vítalíu Lazareva þar sem fimm menn stigu til hliðar eftir að hún greindi frá því að hafa verið beitt ofbeldi af þeim eða að þeir hafi orðið vitni að því.
„Þetta er mjög áhugavert og það mál. Ég hef rannsakað hrunið og karlmennskuna sem var tengd því og mér finnst viðbrögð samfélagsins líta að því að varðandi þessa tegund karlmennsku er grunnt á því góða,“ segir Gyða Margrét og að fyrir hafi margir tengt svona menn við skort á siðferði.
„Það hversu margir voru tilbúnir að fordæma þessa karla tengist því kannski að þeir eru holdgervingar þessarar tegundar karlmennsku og þess vegna var fólk meira tilbúið að fordæma þá.“
Til samanburðar nefnir Gyða Margrét mál innan KSÍ en þar voru viðbrögðin ekki alveg eins þegar málin komu fyrst upp.
Gyða Margrét segir að þetta hafi verið rætt á fundinum í dag og að byltingin í þessum málum sé að stórum hluta falin í því að hvað umræðan er blæbrigðaríkari og hvernig fjölmiðlar sinna málefninu og hvernig umræða er orðin þolendamiðaðri.
„Ég greindi alla umræðu fjölmiðla í tengslum við mál Jóns Baldvins árið 2013 og þá var umræðan með allt öðrum hætti og á forræði valdamikilla karla.“
Staða gerenda skiptir máli
Hvað varðar gerendur og slaufun þeirra segir Gyða Margrét að viðbrögð gerendanna og það hversu mikið þeir axla ábyrgð skiptir máli. Hún segir að þetta hafi verið rætt í viðtali við Stundina í vikunni og þar hafi Ólöf Tara Harðardóttir í Öfgum tekið sem dæmi mál Stefáns Hannessonar í Gagnamagninu sem axlaði ábyrgð og þar sem virtist málinu lokið af hálfu fjölmiðla að minnsta kosti. Gyða Margrét segir að það sama verði, ef til vill, ekki sagt um yfirlýsingu Árna Péturs Jónssonar sem var forstjóri Skeljungs en sagði nýlega af sér vegna máls sem kom upp fyrir 17 árum. Í yfirlýsingunni sagðist hann hafa gengið yfir mörk samstarfskonu sinnar.
„Það sem skiptir líka máli þarna er staða viðkomandi og staða Stefáns er kannski ekki að vera „stór fiskur“ eða einhver sem samfélagið hefur mikinn áhuga á. Það eru margir þættir sem spila inn í en aðalpunkturinn er kannski sá að gerendur eru að skrifa sín handrit og samfélagið metur þá vilja sumra til að gangast við brotum sínum meiri en annarra,“ segir Gyða Margrét.
Spurð hvort einhver niðurstaða hafi verið á fundinum segir Gyða Margrét að í lokin á fundinum hafi komið fram umræður um mikilvægi bæði fræðslu og forvarna en um leið gagnrýnt að flestir svona fundir eða viðburðir endi á slíkum umræðum en svo gerist lítið í kerfinu.
„Einhvers staðar í kerfinu eru flöskuhálsar,“ segir Gyða Margrét.
Hægt er að horfa á viðburðinn með erindi Gyðu Margrétar hér að neðan en þar flutti einnig erindi Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki við HÍ auk þess sem Chanel Björk Sturludóttir, baráttu- og fjölmiðlakona, Edda Falak, umsjónarkona hlaðvarpsins Eigin konur, Jón Ingvar Kjaran, prófessor í hinsegin menntunarfræðum og félagsfræði menntunar við HÍ, og Þorsteinn V. Einarsson, kynjafræðingur og umsjónarmaður Karlmennskunnar. Fundi stýrir Hildur Fjóla Antonsdóttir, nýdoktor hjá EDDU rannsóknarsetri við HÍ og aðjúnkt við félagsfræðideild HÍ.