Gyða Margrét Péturs­dóttir, prófessor í kynja­fræði við Há­skóla Ís­lands, segir að það skipti miklu máli hversu mikið gerendur kynferðisofbeldis axli ábyrgð í sínum málum fyrir afdrif þeirra og mála þeirra. Þá segir hún mikilvægt að þekkja söguna.

Gyða Margrét var með erindi á Jafn­rétti­dögum HÍ í vikunni en þar var það rætt hvert um­ræða um of­beldi, þöggun og slaufunar­menningu stefnir, hvers konar á­kall um breytingar er að finna í um­ræðu um það og hvað þurfi að breytast í ís­lensku sam­fé­lagi.

„Ég talaði á við­burðinum um það hvernig við erum að skapa nýtt við­mið, eða nýtt norm og beitti hug­taki frá Hildi Fjólu Antons­dóttur, réttar­fé­lags­fræðingi, um sam­fellu ó­rétt­lætis,“ segir Gyða Margrét og á þá við það þegar þolandi er beittur kyn­ferðis­legu of­beldi en svo bætast við við­brögð sam­fé­lags og al­mennings sem verða til þess að um er að ræða sam­fellu ó­rétt­lætis.

„Ég er þá að leggja til að við slaufum þessari sam­fellu ó­rétt­lætis,“ segir Gyða Margrét og að í nýjum veru­leika, þar sem það er gert, þá verði brota­þolum ekki refsað fyrir það að hafa orðið fyrir kyn­ferðis­legu of­beldi.

Hún segir að í erindi sínu hafi hún einnig farið aftur í söguna og talið upp dæmi um það hvernig sam­fé­lagið hefur áður brugðist við sögum brota­þola.

„Ég geri það því það er mikil­vægt að þekkja söguna, ekki af því að við ætlum að hverfa til baka. Heldur ein­mitt af því að við ætlum aldrei að fara aftur,“ segir Gyða Margrét sem segir að á sama tíma og við upp­lifum nýtt norm þá upp­lifi fólk kannski fá­rán­leika fyrri við­bragða þegar brota­þolum var refsað fyrir að hafa verið beitt kyn­ferðis­of­beldi.

„Það er gott að upp­lifa það.“

Holdgervingar karlmennsku sem er tengd hruninu

Í Frétta­blaðinu í vikunni kom fram að mikill meiri­hluti, eða um 75 prósent, þeirra sem tóku af­stöðu í skoðana­könnun Prósents segist vera hlynnt því að þeim, sem hafa verið á­sökuð um kyn­ferðis­brot verði, verði vikið úr stjórnunar­störfum eða stjórnum fyrir­tækja og fé­laga.

Spurð út í þetta segir Gyða Margrét að þetta komi ekkert endi­lega á ó­vart. Það tengi ef­laust margir spurninguna við mál Vítalíu Lazareva þar sem fimm menn stigu til hliðar eftir að hún greindi frá því að hafa verið beitt of­beldi af þeim eða að þeir hafi orðið vitni að því.

„Þetta er mjög á­huga­vert og það mál. Ég hef rann­sakað hrunið og karl­mennskuna sem var tengd því og mér finnst við­brögð sam­fé­lagsins líta að því að varðandi þessa tegund karl­mennsku er grunnt á því góða,“ segir Gyða Margrét og að fyrir hafi margir tengt svona menn við skort á sið­ferði.

„Það hversu margir voru til­búnir að for­dæma þessa karla tengist því kannski að þeir eru hold­gervingar þessarar tegundar karl­mennsku og þess vegna var fólk meira til­búið að for­dæma þá.“

Til saman­burðar nefnir Gyða Margrét mál innan KSÍ en þar voru við­brögðin ekki alveg eins þegar málin komu fyrst upp.

Gyða Margrét segir að þetta hafi verið rætt á fundinum í dag og að byltingin í þessum málum sé að stórum hluta falin í því að hvað um­ræðan er blæ­brigða­ríkari og hvernig fjöl­miðlar sinna mál­efninu og hvernig um­ræða er orðin þol­enda­miðaðri.

„Ég greindi alla um­ræðu fjöl­miðla í tengslum við mál Jóns Bald­vins árið 2013 og þá var um­ræðan með allt öðrum hætti og á for­ræði valda­mikilla karla.“

Staða gerenda skiptir máli

Hvað varðar ger­endur og slaufun þeirra segir Gyða Margrét að við­brögð ger­endanna og það hversu mikið þeir axla á­byrgð skiptir máli. Hún segir að þetta hafi verið rætt í við­tali við Stundina í vikunni og þar hafi Ólöf Tara Harðar­dóttir í Öfgum tekið sem dæmi mál Stefáns Hannes­sonar í Gagna­magninu sem axlaði á­byrgð og þar sem virtist málinu lokið af hálfu fjöl­miðla að minnsta kosti. Gyða Margrét segir að það sama verði, ef til vill, ekki sagt um yfir­lýsingu Árna Péturs Jóns­sonar sem var for­stjóri Skeljungs en sagði ný­lega af sér vegna máls sem kom upp fyrir 17 árum. Í yfir­lýsingunni sagðist hann hafa gengið yfir mörk sam­starfs­konu sinnar.

„Það sem skiptir líka máli þarna er staða við­komandi og staða Stefáns er kannski ekki að vera „stór fiskur“ eða ein­hver sem sam­fé­lagið hefur mikinn á­huga á. Það eru margir þættir sem spila inn í en aðal­punkturinn er kannski sá að ger­endur eru að skrifa sín hand­rit og sam­fé­lagið metur þá vilja sumra til að gangast við brotum sínum meiri en annarra,“ segir Gyða Margrét.

Spurð hvort ein­hver niður­staða hafi verið á fundinum segir Gyða Margrét að í lokin á fundinum hafi komið fram um­ræður um mikil­vægi bæði fræðslu og for­varna en um leið gagn­rýnt að flestir svona fundir eða við­burðir endi á slíkum um­ræðum en svo gerist lítið í kerfinu.

„Ein­hvers staðar í kerfinu eru flösku­hálsar,“ segir Gyða Margrét.

Hægt er að horfa á við­burðinn með erindi Gyðu Margrétar hér að neðan en þar flutti einnig erindi Eyja Margrét Brynjars­dóttir, prófessor í heim­speki við HÍ auk þess sem Chanel Björk Sturlu­dóttir, bar­áttu- og fjöl­miðla­kona, Edda Falak, um­sjónar­kona hlað­varpsins Eigin konur, Jón Ingvar Kjaran, prófessor í hin­segin menntunar­fræðum og fé­lags­fræði menntunar við HÍ, og Þor­steinn V. Einars­son, kynja­fræðingur og um­sjónar­maður Karl­mennskunnar. Fundi stýrir Hildur Fjóla Antons­dóttir, nýdoktor hjá EDDU rann­sóknar­setri við HÍ og aðjúnkt við fé­lags­fræði­deild HÍ.