Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tók fyrstur til máls í fyrstu umræðu um fjárlög ársins 2020 í dag. „Nú kemur í ljós hversu miklu máli það skipti að búa vel í haginn fyrir mögru árin þegar vel gekk í efnahagslífi landsmanna síðustu ár.“

Fjármálaráðherra sagði ríkissjóð vera vel í stakk búin við að takast á við fyrirhugaðan samdrátt í samfélaginu án þess að þurfa að hefja skuldasöfnun, „eins og allt of oft hefur orðið niðurstaðan í fyrri niðursveiflum.“

Mikil aukning útgjalda

„Útgjöld ríkissjóðs aukast um 56 milljarða milli ára en tekjur aðeins um 27 milljarða króna,“ sagði Bjarni. „Þrátt fyrir það verður frumjöfnuður ársins jákvæður um 1,6 prósent og heildarafkoma jákvæð um 400 milljónir.“ Þá sagði hann frumjöfnuð aldrei hafa verið jákvæðan þegar hagvöxtur væri minni en 1,5 prósent og taldi það teljast til mikilla tíðinda. „Ísland er enn á meðal þeirra ríkja Evrópu sem skila hvað mestum frumjöfnuði.“

Þá tók Bjarni fram að kaupmáttur meðal OECD ríkja Evrópu væri hvergi hærri en á Íslandi og taldi hann það til stórfrétta. Fjármálaráðherra taldi upp jákvæðar breytingar sem boðaðar eru í frumvarpinu, meðal annars lengra fæðingarorlof, hærri barnabætur og aðgerðir í húsnæðismálum, þannig að fleiri gætu fjárfest í fyrstu eign.

Lækkun skatta á næsta ári

Þá tók hann fram að lækkun tekjuskatts á einstaklinga yrði innleidd á tveimur árum en ekki þremur eins og upphaflega var áformað. „Tekjuskattslækkunin léttir til muna skattbyrði lágtekju- og millitekjur hópa og eykur ráð­stöf­un­ar­tekjur og einka­neyslu heim­il­anna.“ Þá verður klárað að lækka tryggingargjaldið í samræmi við það sem boðað hefur verið og lækkar það um 0,5 prósent á næsta ári.

„Alls munu breytingarnar fela í sér 21 milljarðs króna minni álagningu þegar þær verða að fullu innleiddar en það samsvarar um 10 prósent af tekjum ríkisstjórnar af tekjuskatti einstaklinga.“

Fjórðungur útgjalda í samgöngumál

Bjarni kynnti fjárfestingarverkefni ríkisstjórnarinnar og nefndi að hæstu útgjöldin færu í samgöngumál eða um 28 milljarðar, sem jafngildir um 25 prósent allra útgjalda. Alls er gert ráð fyrir að nýta tæpa 80 milljarða í fjárfestingarverkefni.

Framlög til heilbrigðismála hækka um fimm prósent milli ára eða um 12 milljarða. 16 milljarðar munu fara í velferða og heilbrigðissamninga á næsta ári en heildar umfang boðaðra aðgerða nemur 80 milljörðum fyrir næstu ár.

Milljarðar í nýjan spítala

Stærstu einstöku útgjöld fara í byggingu nýs Landspítala en gert er ráð fyrir átta og hálfum milljarð í það verkefni. Bjarni nefndi að önnur stór verkefni væru kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, smíði nýs hafrannsóknaskips og byggingu Húss íslenskunnar.

Aukin opinber fjárfesting mun meðal annars skila sér í sex hundruð nýjum störfum fyrir árið 2021 að mati Bjarna.