Skiptinemar á framhaldsskóla- og háskólastigi verða langtum færri í haust en í venjulegu árferði. Á það bæði við um nema sem koma hingað til lands og íslenska nema sem fara til útlanda. Sumir skólar erlendis hafa einfaldlega lokað fyrir allt skiptinám meðan á faraldrinum stendur.

Friðrika Þóra Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta hjá Háskóla Íslands, segir að skólinn eigi von á um 200 erlendum skiptinemum en ekki sé víst hvort þeir skili sér allir. Sumir eru þó þegar komnir og byrjaðir að undirbúa haustið. Þetta er helmingsfækkun því í venjulegu árferði eru í kringum 400 skiptinemar við skólann. Þá er einnig umtalsverð fækkun erlendra nemenda sem koma á eigin vegum.

„Sumir af okkar samstarfsskólum erlendis stöðvuðu allt skiptinámið alfarið,“ segir Friðrika. „Síðan eru einnig nemendur sem voru búnir að skipuleggja skiptinám en treystu sér síðan ekki til að ferðast.“ Sömu sögu er að segja af íslenskum nemum, sumir gátu ekki farið og aðrir hættu við að fara, sérstaklega utan Evrópu.

Nýlega var greint frá því að sennilega yrði kennslan í Háskóla Íslands fjarkennsla, að einhverju leyti hið minnsta. Friðrika segir ekki ljóst hvaða áhrif það hafi á skiptinámið. „Þegar við þurftum að skipta yfir í fjarkennslu í vor voru samt margir skiptinemar sem ákváðu að vera áfram á landinu og klára önnina,“ segir hún.

Hið sama á við um yngri skiptinema sem AFS sjá um. Sólveig Ása Tryggvadóttir framkvæmdastjóri segir að tekið verði á móti 15 nemum í haust, en vanalega séu þeir á fjórða tug. Tólf íslenskir nemar fara utan. „Við frestuðum öllu sem við gátum frestað en það er gott að starfsemin leggist ekki alveg niður,“ segir Sólveig. Aðeins sé sent til Evrópu en vanalega eru Bandaríkin og Suður-Ameríka vinsæl. „Öryggi nemenda er alltaf númer eitt tvö og þrjú.“