Í nóvember í fyrra var greint frá því að Umba – þjónustu­mið­stöð Stjórnar­ráðsins hefði fjár­fest í nýjum raf­magns­sport­jeppa sem ætlaður var til að þjónusta Katrínu Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra. Eftir út­boð bárust fjögur til­boð frá bíla­um­boðum og var niður­staðan sú að kaupa bíl af gerðinni Mercedez Benz EQC. Kostnaðurinn var 7,5 milljónir króna sem þótti hag­stætt verð enda um 25 – 30 prósenta af­sláttur frá lista­verði.

Að auki var gerður samningur um kaup á þremur slíkum bílum til við­bótar á næsta ári. Undan­farið hefur vakið at­hygli að annar bíll hefur verið notaður til að skutla for­sætis­ráð­herra milli staða, raf­magns­jeppi af gerðinni Audi e-tron.

Að sögn Viktors Jens Vig­fús­sonar, fram­kvæmda­stjóra Um­bru, var bíllinn ný­lega tekinn á leigu þar til að yfir­standi út­boði um þrjá raf­magns­knúna ráð­herra­bíla lýkur þann 24. júní næst­komandi. „Mercedes Bens EQC, sem var keyptur eftir út­boð á síðasta ári, hefur undan­farið verið nýttur í akstur fyrir heil­brigðis­ráð­herra,“ segir Viktor í skrif­legu svari.

Að hans sögn er ekki ó­vana­legt að bílar flakki milli ráð­herra. „Umbra á og rekur flota bif­reiða og sér um aksturs­þjónustu fyrir ráð­herra. Ein­stök bif­reiða­kaup eru ekki eyrna­merkt á­kveðnu ráðu­neyti eða ráð­herra, þótt í fram­kvæmd sé vana­lega sami bíll í þjónustu hvers ráð­herra í lengri tíma. Þó kunna bíla­skipti milli ráð­herra að eiga sér stað og geta or­sakast af til­teknum aksturs­verk­efnum eða að­gerðum sem miða að hag­kvæmi í rekstri bíla­flotans.“

Að­spurður um á­stæðu þess að Mercedez-raf­magns­jeppinn hafi staldrað svo stutt við í þjónustu for­sætis­ráð­herra og hvort rétt sé að lítið pláss í far­angursými sé á­stæðan segir Viktor:

„Á síðasta ári var keyptur inn einn raf­magns­bíll til reynslu. Á­stæða til­færslu var liður í prófunum á hvernig sá bíll hentar og gefa fleiri bíl­stjórum og ráð­herrum kost á að reyna bílinn. Í út­boði sem nú stendur yfir var síðan tekið mið af þeirri reynslu þegar tækni­legar kröfur voru mótaðar fyrir næstu inn­kaup. Þá var horft til rýmis í bílnum auk tækni­legra þátta og öryggis­krafna í sam­ráði við Ríkis­lög­reglu­stjóra. Meðal annars voru gerðar auknar kröfur um rými og veg­hæð.“

Stefna ríkis­stjórnarinnar er sú að nota ein­göngu raf­magns­knúna bíla og reiknar Viktor með því að það mark­mið náist innan þriggja ára.

Uppfært: Umbra - þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins hefur gert athugasemd við fyrirsögn fréttarinnar sem birtist í Fréttablaði dagsins. Hana megi skilja á þá leið að forsætisráðherra hafi haft aðkomu að skiptum á ráðherrabíl sínum og að farangursrýmið hafi ráðið mestu um þá ákvörðun. Hið rétta sé að forsætisráðherra hafi ekki komið að breytingunni með nokkrum hætti og að megin ástæðan hafi verið auknar kröfur um veghæð bílsins.

Yfirlýsing Umbru í heild sinni:

Vegna fréttar í Fréttablaðinu vill framkvæmdastjóri Umbru - þjónustumiðstöðvar stjórnarráðsins taka fram að forsætisráðherra hafði ekki aðkomu að þeirri ákvörðun að skipta um ráðherrabíl. Ákvörðunin, sem tekin var af Umbru, hafði ekkert með farangursrými bílsins að gera heldur var hún liður í víðtækari prófunum Umbru á þessum fyrsta alfarið rafknúna ráðherrabíl Stjórnarráðsins. Í kjölfar þeirra prófana var niðurstaðan eftir samráð við ríkislögreglustjóra og ráðherrabílstjóra að endurskoða nokkrar kröfur til ráðherrabifreiða. Meginbreytingin sem snýr að bifreið forsætisráðherra er aukin krafa um veghæð.