Lögmanninum Lárusi Sigurði Lárussyni hefur verið vikið úr starfi skiptastjóra þrotabús fasteignafélagsins Þórodds ehf. vegna brots á starfs- og trúnaðarskyldum sínum sem skiptastjóra. Úrskurður þessa efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn.

Ástæða brottvikningarinnar er framferði hans í tengslum við sölu á verðmætustu eign bússins, fasteigninni Þóroddsstöðum sem stendur við Skógarhlíð 22 í Reykjavík.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að áður en til gjaldþrotaskipta kom hafi eignin verið til sölu hjá fasteignasölunni Mikluborg. Í fyrra hafi 200 milljóna kauptilboð í eignina verið samþykkt en salan ekki gengnið í gegn þar sem kaupandinn gat ekki fjármagnað kaupin. Eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta og Lárus skipaður skiptastjóri, hafi húsið hins vegar verið tekið úr sölu hjá Mikluborg en selt stuttu síðar til sama kaupanda í gegnum fasteignasölu eiginmanns og samstarfsmanns Lárusar, Sævars Þórs Jónssonar.

Kaupverðið var hins vegar 70 milljónum lægra en fyrra tilboð, eða 130 milljónir.

Hagsmunir Lárusar sjálfs hafi ráðið för

Í úrskurði héraðsdóms segir að ekki verði annað séð en það hafi verið hagsmunir Lárusar sjálfs sem ráðið hafi framangreindri ákvörðun, en hún hafi tryggt að þóknun vegna sölu fasteignarinnar rynni til eiginmanns hans. Sölulaun eiginmannsins námu 2,5 prósentum af kaupverðinu sem eru hærri sölulaun en gengur og gerist og hálfu prósenti hærri en miðað er við í verðskrá fasteignasölu eiginmannsins.

Er framferði hans með þeim hætti að ekki þykir réttmætt að gefa honum kost á að ráða bót á starfsháttum sínum. Honum verður því vikið úr starfi skiptastjóra.

Fjallað er um fjölda annarra tilvika um aðfinnsluverða háttsemi skiptastjórans í úrskurðinum, meðal annars um aðdraganda ákvörðunar um kaupverð eignarinnar. Andstætt því sem hann hafi haldið fram á skiptafundi, virðist hann ekki hafa rætt verðmat eignarinnar við starfsmenn Mikluborgar, hann hafi ekki aflað óháðs verðmats, ekki kannað ábendingu Mikluborgar um mögulegan kaupanda að eigninni, ekki hafa rætt sölu eignarinnar við aðra kröfuhafa en Íslandsbanka og látið fyrirfarast að boða fyrirsvarsmann hins gjaldþrota félags á fund. Bókhaldsgögn hafi einnig bent til þess að eignarhald félagsins á fasteigninni væri að minnsta kosti umdeilt.

Þá eru einnig gerðar alvarlegar athugasemdir við skort á upplýsingagjöf og ranga upplýsingagjöf til kröfuhafa.

Í niðurlagi úrskurðarins segir:

„Hefur varnaraðili brotið alvarlega við gegn starfs- og trúnaðarskyldum sínum samkvæmt lögum og er framferði hans með þeim hætti að ekki þykir réttmætt að gefa honum kost á að ráða bót á starfsháttum sínum. Honum verður því vikið úr starfi skiptastjóra.“

Skipaður yfir Menntasjóð námsmanna í sumar

Lárus Sigurður er formaður stjórnar Menntasjóðs Námsmanna, skipaður í júlí síðastliðnum af menntamálaráðherra.

Skipaður hefur verið annar skiptastjóri yfir búið og gera kröfuhafar ráð fyrir að boðað verði til fundar um næstu skref fljótlega.

Skaðabótakröfu lýst í búið

Sigurgeir Valsson, lögmaður eins kröfuhafans, sem telur sig réttan eiganda umræddrar eignar, segir umbjóðanda sinn þegar hafa lýst skaðabótakörfu í búið, vegna fjártjóns sem ráðstafanir skiptastjórans hafa valdið honum. Hann skilji sér rétt til að höfða mál á hendur honum persónulega, fáist tjónið ekki bætt með öðrum hætti.

Samkvæmt heimildum blaðsins eru aðrir kröfuhafar að leggja mat á réttarstöðu sína.