Gasleki hefur greinst á fjórum stöðum úr gasleiðslunum Nord Stream 1 og 2 í Eystrasalti. Ríkisstjórnir Danmerkur og Svíþjóðar greindu frá því í gær að um væri að ræða tvær skemmdir inni í landhelgi hvors ríkisins fyrir sig.

Atlantshafsbandalagið telur gaslekann vera af völdum skemmdarverka og segir að árásum á innviði hernaðarbandalagsins verði svarað með sameiginlegum viðbragðs­aðgerðum. Í yfirlýsingunni sem bandalagið gaf út í gegnum Norður-Atlantshafsráðið var ekki farið nánar út í það hver viðbrögðin kynnu að verða eða hver ætti að hafa framið skemmdarverkin.

Sum aðildarríki NATO og bandamenn þeirra, þar á meðal Spánn og Úkraína, hafa þó verið ómyrk í máli og beinlínis bendlað Rússa við skemmdirnar. Mykhajlo Podoljak, ráðgjafi forseta Úkraínu, jafnaði skemmdarverkunum við hryðjuverk og sagði Rússa bera ábyrgð á þeim.

Fyrir sitt leyti hafna Rússar því að hafa átt við leiðslurnar en segja lekann þó bera merki þess að vera af völdum ríkisstyrkts hryðjuverks. „Það er afar erfitt að ímynda sér að ámóta hryðjuverk hafi getað gerst nema með tilstuðlan ríkis af einhverri gerð,“ sagði Dmítríj Peskov, talsmaður ríkisstjórnar Rússlands.

Rússar segja Bandaríkjamenn koma til með að græða á skemmdum á gasleiðslunum þar sem þeir gætu aukið sölu á fljótandi jarðgasi til Evrópu ef leiðslurnar yrðu ónothæfar. María Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, tók svo til orða að lekarnir væru á landsvæði sem væri „undir fullkominni stjórn bandarískra leyniþjónustustofnana“.