Hagstofan birtir í dag vísitölu neysluverðs. Landsbankinn spáir því að hún hækki um 0,27 prósent milli mánaða og að ársverðbólgan lækki úr 9,4 prósentum í 9,3 prósent.

Í síðustu viku spáði Íslandsbanki því að verðbólga færi lækkandi.

Veritabus er á öðru máli og telur verðbólguna hækka um 0,56 prósent milli mánaða þannig að ársverðbólgan hækki úr 9,4 prósentum í 9,8 prósent.

Veritabus telur talsverðar erlendar hækkanir enn vera í pípunum, auk þess sem nokkur innlend verðbólga sé til staðar.

Samkvæmt spá Veritabus hækkar matur og drykkjarvörur um 1,4 prósent milli mánaða og hefur hækkunin síðustu 12 mánuði þá numið 10,9 prósentum. Búist er við 0,7 prósenta hækkun mælds húsnæðiskostnaðar, sem þá hefur hækkað um 14,7 prósent síðasta árið. Ferðir og flutningar hækka lítillega en hafa hækkað um 11,7 prósent síðustu 12 mánuði.

Þeir liðir sem hafa drifið verðbólguna síðustu 12 mánuði eru matvara, húsnæði og eldsneyti. Að mati Veritabus heldur húsnæðismarkaður áfram að róast.

Veritabus notar eigin verðkannanir og opinber gögn við mat á verðbólgu.