Skiptar skoðanir eru á nýju vakta­fyrir­komu­lagi slökkvi­liðsins á höfuð­borgar­svæðinu sem tók form­lega gildi í dag. Til­gangurinn með breytingunum er að auka mögu­leika þess að sam­þætta vinnu og einka­líf, auk þess að gera vakta­vinnu að­gengi­legri fyrir stærri hóp. Slökkviliðsstjóri segir að hann gerir sér grein fyrir því að fólk hafi mismunandi skoðanir á nýja fyrirkomulaginu, en hann heldur að fleiri sjái kostina frekar en gallana.

Í nýja vakta­fyrir­komu­laginu verða þrí­skiptar vaktir á virkum dögum í stað tólf tíma vakta, en um helgar verða á­fram tólf tíma vaktir. Sam­kvæmt Birgi Finns­syni, starfandi slökkvi­liðs­stjóra er mesta breytingin fyrir starfs­fólk að að­lagast nýju vinnu­skipu­lagi og nýjum starfs­fé­lögum, en í gegnum árin hafa ekki verið miklar hreyfingar hjá fólki á milli vakta.

„Það er verið að stytta vinnu­vikuna, eða vinnu­tíma starfs­manna slökkvi­liðsins, sem felur í sér að þeir fara úr 40 tíma vinnu­viku­niður í 36 tíma. Það hefur þau á­hrif að við þurftum að fjölga úr fjórum upp í fimm vakt­hópa,“ segir Birgir.

Ekki eru allir sáttir við styttingu vinnuvikunar hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Í dag var í fyrsta skipti sem vaktaskipti áttu sér stað á miðjum degi. Birgir segir að þjónustan við skjól­stæðinga muni ekki skerðast vegan breytinganna og að starf­semin mun verða sú sama. Hins vegar hefur heyrst að það ekki séu allir sáttir við nýja fyrirkomulagið.

„Þetta er breyting og þetta er stór breyting. Þó svo að orðið stytting vinnu­vikunnar feli í sér að það eigi að vera já­kvætt fyrir alla, þá hafði það auð­vitað líka á­hrif á að við þurftum að breyta vakta­skipu­laginu og við þurftum að mæta á­kveðnum á­skorunum. Okkar starfs­fólk er vant því að vera á tólf tíma vöktum. Nú eru vaktirnar skemmri, þannig það er á­skorun. Við gerum okkur grein fyrir því að fólk hafi mis­munandi skoðanir á þessu, en ég held að fleiri að sjá kostina í þessu. Við höfum bara verið að vinna í því með auknu upp­lýsinga­flæði og að reyna sjá tæki­færin í því að taka þetta upp,“ segir Birgir.

Við­talið við Birgi í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.