Embætti landlæknis og Krabbameinsfélagið leggjast gegn frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingar á áfengislögum. Samtök atvinnulífsins, Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu eru því hins vegar fylgjandi.

Í frumvarpsdrögunum er lagt upp með að heimila vefverslun með áfengi í smásölu og að smærri brugghús geti selt bjór á framleiðslustað. Alls hafa 147 umsagnir borist inn í samráðsgátt stjórnvalda. Skoðanir eru mjög skiptar.

Landlæknir segir ekki litið til áhrifa á lýðheilsu. „Umsögn embættisins byggir á lýðheilsusjónarmiðum, því leggst embættið gegn þessari breytingartillögu um aukið aðgengi að áfengi.“

Sömu sjónarmið eru á lofti í umsögn Krabbameinsfélagsins.

„Lengi hefur verið vitað að neysla áfengis eykur líkur á krabbameinum í munnholi, koki, barkakýli, vélinda, lifur, brjóstum, ristli og endaþarmi. Áfengi veldur til dæmis 5 prósentum brjóstakrabbameina og 3 prósentum krabbameina í ristli og endaþarmi á Norðurlöndum.“

Samtök atvinnulífsins segja breytinguna varfærna þar sem áfram gildi strangar reglur um kaupendur. Sala handverksbrugghúsa auðveldi ekki aðgengi að áfengi þar sem nú þegar sé hægt að heimsækja þau og kaupa bjór.

„Hins vegar tryggir breytingin að handverksbrugghús geta á auðveldari hátt komið vörum sínum í verð. Þannig er samkeppnisstaða þeirra í betra samræmi við samkeppnisstöðu stærri framleiðenda sem hafa betra aðgengi að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.“