Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist hafa verulegar áhyggjur af stöðunni sem nú séu komin upp vegna uppsagna flugfreyja og flugþjóna hjá Icelandair.

„Okkur finnst vera komin upp úrslitastaða á vinnumarkaði, hvernig fyrirtækin ætla að haga sér í framtíðinni og hvar samnefnarinn á að liggja þegar kemur að kjörum launafólks,֧“ segir formaðuri VR.

Að sögn Ragnars er málið miklu stærra en aðeins það sem snúi að Icelandair. Viðmiðið sé lágt varðandi kjör. Fyrirtæki telji sig geta sniðgengið kjarasamninga og leikreglur vinnumarkaðarins og „verslað“ við stéttarfélög sem þeim séu að skapi. „Þessi þróun er varasöm í öllum skilningi,“ segir hann og minnir á að nýlega samþykktar stefnur lífeyrissjóða gangi út á slíkt gerist ekki.

Sniðgangi hlutafjárútboðið

Stjórn VR beindi því í dag til stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna að sniðganga væntanlegt hlutafjárútboð Icelandair að óbreyttu.

Aðspurður hvað gerist ef stjórnarmenn VR í Lífeyrissjóði verslunarmanna fari ekki eftir tilmælum stjórnar VR verði þeim einfaldlega skipt út eins og gert hafi verið ekki alls fyrir löngu. „Og þá skipum við stjórnarmenn sem hafa þau gildi sem verkalýðshreyfingin stendur fyrir.“

Ragnar segir það sama gilda um stjórnvöld. „Ég sem skattgreiðandi er ekki sáttur við að stjórnvöld hlaupi undir bagga með fyrirtækjum sem ætla sér að fara í einhvers konar gerfiverktöku, semja við stéttarfélög sem eru þeim þóknanleg og þeir geta komist upp með nánast hvað sem þeir vilja gagnvart,“ segir hann. Þannig sé farið gegn leikreglum vinnumarkaðarins sem tekið hafi áratugi og að smíða og búa til. Með því væri verið að „slást í hóp alþjóðavæðingar fyrirtækja sem alþjóðasamfélagið er að berjast gegn.“