Framsóknarflokkurinn hefur skipt út konu fyrir karl í undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar Alþingis eftir að ljóst var að skipun hennar var í bága við nýsamþykkt ákvæði þingskapa Alþingis um að kynjahlutföll nefnda séu sem jöfnust.

Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins, var skipt út fyrir Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmann sama flokks. Greint er frá því á vef Vísis en þar segir Willum Þór Þórsson að það hafi verið gert vegna jafnréttissjónarmiða.

Fjallað var um málið í Fréttablaðinu fyrir helgi. Alls sitja níu í nefndinni og af níu skipuðum voru sex konur skipaðar. Eftir breytinguna eru fimm konur og fjórir karlar.

Eins og komið hefur fram er sá háttur oftast hafður á að undir­búnings­nefndin sem undir­býr störf kjör­bréfa­nefndar áður en þing er sett, er skipuð sömu full­trúum og til­nefndir eru og hina eigin­legu kjör­bréfa­nefnd á þing­setningar­degi.

Ekki náðist í Willum Þór Þórs­son, starfandi for­seta þingsins, við vinnslu fréttarinnar.