Fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyrir­tækja í sjávar­út­vegi (SFS) segir að mál frystitogarans Júlíusar Geir­munds­sonar, þegar Co­vid-19 hóp­sýking kom upp í miðjum fiski­túr, hafi skaðað sam­skipti milli út­gerðar og sjó­manna í landinu. Hún segir mikil­vægt að út­gerð og skip­stjóri togarans axli á­byrgð.

„Mikil­vægt er að sam­skipti út­gerða og sjó­manna séu góð, sér­stak­lega þegar í hlut eiga frysti­skip sem eru lengi á sjó. Þetta mál hefur skaðað þessi sam­skipti,“ segir Heið­rún Lind Marteins­dóttir, fram­kvæmda­stjóri SFS í til­kynningu sem hún sendi frá sér í dag.

„SFS hyggjast ræða málið við for­ystu­menn stéttar­fé­laga sjó­manna á næstu dögum. Mikil­vægt er að greina hvað fór úr­skeiðis og læra af því. Raunir þessara skip­verja á Júlíusi Geir­munds­syni mega ekki endur­taka sig á ís­lenskum skipum.“

Eins og greint hefur verið frá smituðust 22 af 25 á­hafnar­með­limum togarans af kórónu­veirunni í þriggja vikna löngum túr. Veikindi komu upp meðal þeirra strax á öðrum degi og hefði út­gerðin fylgt settum fyrir­mælum um við­brögð við veikindum innan á­hafnar í far­aldrinum má ætla að færri hefðu smitast en raun varð.

Skýrar leiðbeiningar

Heið­rún Lind segir rétt að taka fram að ítar­legar leið­beiningar hafi verið gefnar út í vor um hvernig bregðast skyldi við. Út­gerðin hefði til dæmis átt að til­kynna veikindin strax til Land­helgis­gæslunnar. Hún frétti hins vegar ekki af veikindum um borð fyrr en eftir að á­hafnar­með­limirnir höfðu farið í skimun, um þremur vikum eftir að þau komu fyrst upp.

„Á þessum mis­bresti verða skip­stjóri og út­gerð skipsins að axla á­byrgð.“
Fréttablaðið/Stefán

„Um borð í skipum er nánd mikil á milli manna og veikindi geta hæg­lega borist út, eins og því miður sýndi sig í þessu til­felli. Af þeim sökum var sér­stak­lega mikil­vægt að vera með skýrar leið­beiningar um bestu fram­kvæmd í þessum að­stæðum. Leið­beiningarnar voru samdar sam­eigin­lega af Sam­tökum fyrir­tækja í sjávar­út­vegi og stéttar­fé­lögum sjó­manna, í góðu sam­starfi við em­bætti land­læknis, og sendar á út­gerðir,“ segir Heið­rún Lind.

„Í til­felli Júlíusar Geir­munds­sonar var ekki farið eftir þessum leið­beiningum. Sam­kvæmt þeim hefði átt að hafa sam­band við Land­helgis­gæsluna þegar veikinda varð vart og þar með hefði málið verið komið í réttan far­veg. Á þessum mis­bresti verða skip­stjóri og út­gerð skipsins að axla á­byrgð.“

Báðust afsökunar

Út­gerð togarans, Hrað­frysti­húsið Gunn­vör, sendi frá sér til­kynningu í dag þar sem í­trekað var að hún viður­kenndi mis­tök sín. Þá bað hún alla skip­verja af­sökunar á málinu.

Stéttar­fé­lög sjó­manna hafa kallað eftir að lög­reglu­rann­sókn fari fram á málinu.