Mál Sveins Geirs Arnars­sonar, skip­stjóra á frysti­togaranum Júlíusi Geir­munds­syni, var þing­fest fyrir Héraðs­dómi Vest­fjarða í dag. Sveinn játaði sök í málinu og var sviptur skip­stjórnar­réttindum í fjóra mánuði frá og með deginum í dag. Þetta kemur fram á vef Vísis.

Þá er Sveini einnig gert að greiða 750 þúsund króna sekt fyrir brot sitt. Sveinn var á­kærður fyrir að brjóta gegn annarri máls­grein 34. greinar sjó­manna­laga. Í greininni kemur fram að sé skip­verji haldinn sjúk­dómi sem hætta starfar af skuli skip­stjóri láta flytja sjúk­linginn í land ef eigi reynist unnt að verjast smit­hættu á skipinu.

Héldu túrnum áfram þrátt fyrir veikindi

Hóp­smit kom upp í togaranum í lok septem­ber á síðasta ári. Alls veiktust 22 af 25 í áhöfninni, sumir hverjir alvarlega og glíma nokkrir við langvarandi áhrif veikindanna. Sveinn tók á­kvörðun um að halda á­fram þriggja vikna veiði­túr togarans þrátt fyrir að veikindi hafi komið upp innan á­hafnarinnar á öðrum degi.

Sam­­kvæmt leið­beiningum, sem bæði Sam­tök fyrir­­­tækja í sjávar­­út­vegi og stéttar­­fé­lög sjó­manna komu sér saman um í upp­­hafi far­aldursins, hefði út­­gerðin átt að til­­kynna veikindin til Land­helgis­­gæslunnar um leið og þau komu upp.

Hrað­frysti­húsið Gunn­vör, sem á togarann Júlíus Geir­­munds­­son, bað alla skip­verjana, sem voru um borð þegar hóp­­smit kom upp ein­lægrar af­­sökunar á mis­tökum sínum í lok októ­ber. Út­­gerðin segist hafa átt að til­­kynna Land­helgis­­gæslunni mun fyrr um að grunur lægi á kórónu­veiru­­smiti um borð.

Í sjó­prófi í lok nóvember vitnuðu skip­verjarnir um þrýsting til að vinna þrátt fyrir veikindi og ótta við að missa vinnuna.