Gáma­skipið Ever Given, sem hefur setið fast í Súes­skurðinum í tæp­lega viku, er nú loksins laust og komið á flot en fyrir­tækið Boska­lis, sem sá um björgunar­að­gerðirnar, greindi frá því fyrir skömmu að það hefði tekist að losa bóg skipsins frá bakkanum. „Þetta tókst!“ segir í til­kynningu Boska­lis.

Hafnar­yfir­völd stað­festa að búið sé að losa skipið og sýna loft­myndir að skipið er nú komið frá bökkunum. Áður var óttast að það myndi taka lengri tíma að losa skipið þar sem bógur skipsins var pikk­fastur í bakkanum og það myndi reynast veru­lega erfitt að losa skipið þaðan.

Skipið verður nú flutt til Great Bitter Lake þar sem skoðun á skipinu og rann­sókn fer fram en skipið er nú þegar á leiðinni þangað. Í kjöl­far skoðunar verður metið hvað verður um farm skipsins

Líkt og áður hefur verið greint frá hefur skipið, sem er 400 metrar að lengd, 59 metrar að breidd, og rúm­lega 220 þúsund tonna þungt, setið fast í Súes­skurðinum við Egypta­land frá því um morguninn síðast­liðinn þriðju­dag og þar með lokað fyrir alla um­ferð.

Á fjórða hundruð skip hafa tafist vegna málsins og hafa tafirnar reynst veru­lega dýr­keyptar, bæði með til­liti til leigu á flutninga­skipum og kostnað á farmi um borð skipanna. Talið er að tafirnar hafi kostað hag­kerfið marga milljarða á hverjum degi.