Yfirvöld á Kanaríeyjum hafa fyrirskipað þrjú þúsund manns á eyjunni La Palma að halda sig innandyra. Hraun flæðir nú út í sjó með tilheyrandi hættu á að eitruð gös losni út í andrúmsloftið.

Miguel Angel Morcuende, yfirmaður hjá jarðhræringahætturáði Kanaríeyja, Pevloca, tilkynnti að íbúar í sjávarþorpum nærri staðnum þar sem hraunið fer nú í sjóinn skyldu halda sig á heimilum sínum. Þetta er í þriðja sinn sem hraun fer út í sjó síðan eldfjallið Cumbre Vieja byrjaði að gjósa þann 19. september.

Öllu flugi til og frá La Palma var aflýst á mánudag vegna öskufalls, en það var þriðji dagurinn í röð sem samgöngur raskast vegna eldgossins. 85 þúsund manns búa á eyjunni og hafa nú þegar 1.500 byggingar farið undir hraun.