„Þetta eru risa­stór plön,“ segir Sigur­jón Andrés­son, bæjar­stjóri Horna­fjarðar, um á­formaða upp­byggingu á Höfn.

Út­gerðar­fyrir­tækið Skinn­ey-Þinga­nes stendur að baki til­lögunni um nýjan mið­bæjar­kjarna við at­hafna­svæði fé­lagsins við höfnina.

„Þarna er Skinn­ey-Þinga­nes að hugsa sér fjár­festingu í inn­viðunum vegna þess að hús­næðis­skortur hér er ein­fald­lega mjög mikill,“ segir Sigur­jón. „Menn vilja fara í upp­byggingu í sínu nær­um­hverfi og láta sam­fé­lagið njóta þess.“

Bæjar­stjórinn kveður mjög mikla upp­byggingu á svæðinu nú þegar tengda ferða­þjónustu og ýmsu öðru. „Það eru stórar hug­myndir um að bæta mjög þar í og við verðum að ráðast á skipu­lags­málin og skipu­leggja meira fyrir byggð,“ segir hann. Nú þurfi að fara í gang greiningar- og skipu­lags­vinna sem hann sé bjart­sýnn á að gangi vel. „Við sjáum engin ljón í veginum.“

Að sögn Sigur­jóns vinnur Skinn­ey-Þinga­nes verk­efnið í sam­vinnu við Batteríið sem er arki­tekta­stofan sem hannaði nýja mið­bæinn á Sel­fossi.

„Við fengum þetta ný­lega inn til bæjarins til um­fjöllunar og erum geysi­lega spennt og finnst þetta smell­passa við ýmsar aðra á­ætlanir sem við erum með. Við höfum fyrir­myndina á Sel­fossi og vitum að þetta virkar,“ segir hann.

Að sögn Sigur­jóns Andréssonar, bæjarstjóra Hornafjarðar, vinnur Skinn­ey-Þinga­nes verk­efnið í sam­vinnu við Batteríið sem er arki­tekta­stofan sem hannaði nýja mið­bæinn á Sel­fossi.
Mynd/Aðsend

Fyrir­huguð stað­setning er að sögn Sigur­jóns að mestu leyti á svæði sem sé byggt hús­næði á hendi Skinn­eyjar-Þinga­ness. Aðal­lega sé það hús­næði sem fyrir­tækið geti endur­nýjað á öðru at­hafna­svæði sem starf­semin hafi í raun þegar flust til. Ekki þurfi að ryðja miklum verð­mætum úr vegi.

Í nýja kjarnanum á að vera blanda af í­búðum, verslunum, mat­höll, kaffi­húsum og öðru á allt að sau­tján þúsund fer­metrum eins og fyrr segir. „Það er bara allur pakkinn,“ bendir Sigur­jón á.

Verk­efnið segir bæjar­stjórinn vera afar spennandi. „Ferða­viljinn er svo gríðar­legur og bærinn hér nánast upp­seldur yfir sumarið sér­stak­lega en líka á veturna,“ segir hann.

Nú fá í­búar að koma sínum sjónar­miðum á fram­færi að sögn Sigur­jóns sem að­spurður kveður undir­tektir Horn­firðinga góðar.

„Við höfum fundið fyrir of­boðs­lega mikill já­kvæðni. Bæði gagn­vart þessu verk­efni og ýmsu öðru sem er að fara í gang hjá okkur,“ segir bæjar­stjórinn. „Við erum að skipu­leggja stórt land undir í­búða­byggð í bænum og það er mikill kraftur og mjög bjart fram undan hjá okkur.“