Íslenskir ríkisborgarar og erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis, sem koma frá útlöndum, þurfa nú að fara í fimm daga heimkomusmitgát velji þeir að fara í skimun á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins í stað þess að fara í tveggja vikna sóttkví. Við komuna til landsins er tekið sýni á flugstöðinni og að fimm daga sóttkví lokinni fer fram önnur sýnataka þar sem skimað er fyrir COVID-19.

Í minnisblaði landlæknis sem dagsett er 8. júlí kemur fram að reynsla af skimun á landamærum hafi leitt í ljós að smit meðal ferðamanna sé fátítt en að hætt sé við að einstaklingar sem nýlega hafi smitast af COVID-19 greinist ekki í skimun og geti því smitað frá sér. Íslenskir ríkisborgarar séu í samneyti við fleiri og hafi stærra tengslanet hérlendis en ferðamenn og því sé mikilvægt að skima aftur fyrir veirunni fjórum til fimm dögum eftir heimkomu.

Meðan á heimkomusmitgátinni stendur er fólki óheimilt að fara á mannamót þar sem fleiri en tíu eru saman komnir, að vera í samneyti við fólk sem tilheyrir viðkvæmum hópum og að heilsa með handabandi eða faðmlagi. Þá skal fólk gæta að sóttvörnum og tveggja metra reglunni. Heimilt er að fara í búðarferðir, bíltúra, nota almenningssamgöngur og hitta vini með þeim takmörkunum sem greint hefur verið frá hér að framan.

Allir þeir sem koma til landsins þurfa annaðhvort að fara í tveggja vikna sóttkví eða sýnatöku á Keflavíkurflugvelli en afkastageta sýnatökuteymisins takmarkast við tvö þúsund sýni á dag. Hingað til hafa farþegar sem fara í gegnum flugvöllinn ekki verið fleiri en tvö þúsund en með auknum fjölda ferðamanna hingað til lands stefnir í að fella þurfi niður flug til landsins til að hægt sé að skima alla og halda farþegafjölda undir þeirri tölu.

Landspítalinn tekur við skimunum á Keflavíkurflugvelli í dag en til þessa hefur Íslensk erfðagreining (ÍE) séð um að greina öll sýni sem tekin eru á landamærunum. Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, greindi frá því í gær að Íslensk erfðagreining verði spítalanum innan handar fyrst um sinn og muni halda áfram skimun á landamærunum í eina viku. Þegar Fréttablaðið fór í prentun höfðu verið tekin tæplega 35 þúsund sýni við landamærin.

Frá því að fyrsta smit greindist hér á landi þann 28. febrúar, hafa verið tekin nærri 68 þúsund sýni og staðfest tilfelli smits eru 1.900 talsins. Tæplega 23 þúsund manns hafa lokið sóttkví, rúmlega 1.800 manns er batnað af COVID-19 og tíu hafa látist af völdum sjúkdómsins. Í gær voru fimmtán manns í einangrun og 77 í sóttkví. Ekkert smit hefur greinst innanlands síðan 3. júlí.

Enn eru í gildi takmarkanir á samkomum og ekki er heimilt að fleiri en 500 manns komi saman. Á veitingastöðum, í bíóhúsum, leikhúsum og öðrum stöðum þar sem veitt er þjónusta skal tryggja að þeir sem það kjósi geti haldið tveggja metra fjarlægð frá öðrum. Veitinga- og skemmtistaðir, krár og spilasalir mega vera opnir til ellefu á kvöldin.