Alls hafa á Reyðar­firði verið tekin tæp­lega 400 sýni síðustu tvo daga vegna smita sem þar hafa greinst meðal barna, um 250 í gær og 140 í dag.

Í dag voru börn í 4. til 10. bekk í grunn­skólanum á Reyðar­firði skimuð. Greint hefur verið frá 13 smitum nú þegar en niður­staða úr sýna­tökum dagsins munu væntan­lega liggja fyrir í kvöld.

Í til­kynningu frá að­gerða­stjórn lög­reglunnar á Austur­landi kemur fram að smitrakning er í fullum gangi og að það sé vonast til þess að sýna­taka dagsins gefi betri mynd af út­breiðslu smita.

Að­gerða­stjórn Austur­lands fundar í fyrra­málið og fer yfir stöðu mála. Enn hefur ekki verið tekin á­kvörðun um skóla- eða leik­skóla­starf á mánu­daginn. For­eldrar verða upp­lýstir um leið og niður­stöður liggja fyrir.