Lögreglan þurfti að leita hátt í tuttugu manns svo hægt væri að skima þau fyrir kórónaveirunni eftir að tveir fíklar greindust með veiruna. Héldu þeir til í húsi sem kviknaði í fyrir helgi.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að lögreglan hafi reynt að hafa uppi á hópi fólks eftir að smit kom upp í jaðarhópi. Erfitt væri að ná til fólksins sem hafi sumt ekki fasta búsetu.

Ein grunuð um aðild að eldsvoðanum

Í frétt Stöðvar 2 kemur fram að hópur fólks í virkri neyslu hafi haldið til í leiguíbúð við Samtún í Reykjavík en eldur kviknaði í húsinu fyrir helgi. Er íbúðin sögð hafa verið í slæmu ásigkomulagi fyrir brunann.

Ein kona hefur verið færð í síbrotagæslu vegna gruns um aðild að brunanum auk annarra brota.

Hún er á meðal þeirra sem héldu til í húsnæðinu en lögregla þurfti eins og áður segir að hafa uppi á hátt í tuttugu manns til þess að taka af þeim sýni í kjölfar málsins.

Vilja upplýsa um hættuna

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn sagði í samtali við Fréttablaðið að lögreglan leiti nú allra leiða til að ná til fólks í þessum hópi sem hafi orðið útsettir fyrir smiti.

„Við höfum verið að hafa samband við félagahópana þeirra og reyna að hitta þá, bjóða þeim sýnatöku og reyna að útskýra fyrir þeim hvaða úrræði eru í boði og þá líka að reyna að upplýsa þau um það ef að þau eru útsett og eiga að vera í sóttkví, hvað það þýðir og svo framvegis.“