Í nýjum tillögum embættis landlæknis og skimunarráðs er lagt til að skimanir fyrir krabbamein verði að einhverju leyti færðar á heilsugæslustöðvar og verði hluti af almennri og opinberri heilbrigðisþjónustu. 

Mælt er með að framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini verði á höndum tiltekinna heilsugæslustöðva en leghálsspeglanir vegna afbrigða við leghálsskoðun verði gerðar á vegum Landspítalans. Þá er lagt til að rannsóknarstofa frumustroka vegna leghálssýna gæti flust til Stjórnstöðvar skimana eða á Landspítalann og að veirurannsóknir á legálssýnum verði gerðar á veirufræðideild Landspítalans. 

Lagt er til að brjóstamyndatökur vegna brjóstakrabbameins verði gerðar á vegum Krabbameinsfélags Íslands, eins og nú er, eða hjá öðrum aðila eftir því hvernig um semst og að frekari rannsóknir vegna afbrigða við brjóstamyndatökur verði áfram gerðar á vegum Landspítalans. 

Að lokum er lagt til að leit að duldu blóði í hægðum verði gerð á blóðmeinafræðideild Landspítalans.

Stjórnstöð skimunar sett á stofn

Lagt er til að sett verði á stofn sérstök Stjórnstöð skimunar sem hafi það hlutverk að skipuleggja og semja um framkvæmd skimana og að stjórnstöðinni verði fundinn staður innan Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu. Einnig munu þau sjá um innkallanir og upplýsingagjöf til þeirra sem boðuð eru í skimun. Stjórnstöðin myndi einnig sinna rekstri Krabbameinsskrár í umboði landlæknis. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það mikilvægan áfanga að faglegt álit skimunarráðs ásamt tillögum Embættis landlæknis um framtíðarfyrirkomulag skipana fyrir krabbameinum liggi nú fyrir. Í samræmi við tillögurnar muni hún skipa verkefnastjórn um framkvæmd tillagnanna undir forystu heilbrigðisráðuneytisins með aðkomu Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu, Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands, Landspítala Krabbameinsskrár, Embættis landlæknis og ef til vill fleiri aðilum. 

„Með þessum tillögum er stigið skref í átt að innleiðingu íslenskrar krabbameinsáætlunar og eins falla tillögurnar og markmið þeirra vel að heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og þingsályktun um hana sem er til umfjöllunar á Alþingi,“ segir Svandís í tilkynningunni.  

Framtíðarlausn nauðsynleg

Með því að flytja þjónustuna til heilsugæslunnar meta landlæknir og skimunarráð að betur verið haldið utan um skipulag, utanumhald og eftirlit skimana. Enn fremur er lagt til að sett verði löggjöf um skimanir til að setja verkefninu skýrari farveg, skapa því stöðugleika og tryggja öryggi þátttakenda, gæðaeftirlit og fjármögnun. Landlæknir telur framtíðarlausn á fyrirkomulagi þessara mála nauðsynlega svo skipuleggja megi skimanir til langs tíma. 

Segir í tilkynningu frá ráðuneytinu að með tillögunum sé verið að færa fyrirkomulag skimana nær því sem mælt er með í leiðbeiningum Evrópusambandsins.  

Skimunarráð er ráðgefandi fyrir Embætti landlæknis og var skipað í apríl á liðnu ári í samræmi tillögu ráðgjafarhóps sem vann að mótun íslenskrar krabbameinsáætlunar. 

Tillögurnar eru aðgengilegar hér.