„Ég hef skilning á því að það eru vonbrigði með þessa niðurstöðu varðandi lesskilning. Það voru miklar væntingar til lesskilningsins enda búið að vinna mikið í þessum málum undanfarin ár,“ segir Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, um niðurstöður PISA-könnunarinnar sem kynntar voru í gær.

Könnunin var lögð fyrir 15 ára nemendur vorið 2018 en hún hefur verið gerð á þriggja ára fresti frá 2000. Svarhlutfallið á Íslandi var 87 prósent en nemendur í 142 grunnskólum tóku þátt. Í PISA-könnuninni er lesskilningur mældur, stærðfræðilæsi og læsi á náttúruvísindi.

Íslenskir nemendur fengu að meðaltali 474 stig fyrir lesskilning sem er um átta stigum minna en í könnuninni 2015. Aðeins sex OECD-ríki voru með marktækt færri stig að meðaltali en Ísland, fimm lönd fengu álíka mörg en 24 lönd voru með marktækt fleiri stig.

Hlutfall nemenda sem ekki ná grunnhæfni í lesskilningi eykst úr 22 prósentum í 26 prósent milli kannana. Hjá drengjum eykst þetta hlutfall úr 29 prósentum í 34 prósent.

Arnór Guðmundsson segir niðurstöðuna hvatningu. Fréttablaðið/Anton

Læsi nemenda í náttúruvísindum en nánast óbreytt frá könnuninni 2015 og er Ísland undir meðaltali OECD. Hins vegar er frammistaða nemenda marktækt betri í stærðfræði en í síðustu könnun og er í heild yfir meðaltali OECD. Ísland er neðst Norðurlandanna í öllum þremur matsflokkum PISA-könnunarinnar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir þessar niðurstöður ekki koma sér á óvart. Hún boðar víðtækar aðgerðir til að bregðast við niðurstöðunum.

„Við erum búin að greina þetta og erum að fara í ýmsar aðgerðir. Við ætlum meðal annars að fjölga móðurmálstímum og leggja stóraukna áherslu á íslensku í öllum greinum,“ segir Lilja.

Einnig þurfi að leggja mikla áherslu á að auka orðaforða nemenda og þar nefnir Lilja markmið um 98 prósenta regluna. Samkvæmt henni þurfa nemendur að þekkja 98 prósent orða í texta námsgagna til að geta skilið og tileinkað sér innihaldið án aðstoðar.

Þá þurfi að horfa til landa sem hafi náð góðum árangri í PISA. „Ef við lítum bara á Svíþjóð þá eru á miðstigi 35 prósent fleiri móðurmálstímar en hér. Við ætlum að breyta þessu.“

Gera á breytingar á viðmiðunarstundatöflum þar sem líka á að fjölga kennslustundum í náttúruvísindum. Auk þess verður starfsþróun kennara efld og kennurum með sérhæfða þekkingu fjölgað.

„Þegar við náum þessu fram munum við sjá betri árangur. Það er gríðarlegur mannauður á Íslandi en allt þetta þarf að vinna í góðu samstarfi við skólasamfélagið, sveitarfélögin og heimilin í landinu,“ segir Lilja.

Arnór segir niðurstöður PISA nú hvatningu til að gera betur en viðurkennir að mikil vinna sé fram undan. „Við höfum viljað horfa á nokkra þætti, sérstaklega starfsþróun kennara og þá í tengslum við námskrána, innleiðingu hennar og eflingu þess hvernig er unnið með námsgögn og námsmat.“