„Ég skil vel að sala af tveimur þriðju hluta­bréfa For­lagsins til Stor­ytel hafi komið á ó­vart og valdi sumum á­hyggjum,“ segir Hall­dór Guð­munds­son, for­maður stjórnar Máls og menningar og For­lagsins, í færslu á Face­book-síðu sinni.

Eins og greint var frá í gær hefur Stor­ytel AB, móður­fé­lag Stor­ytel á Ís­landi, eignast 70 prósenta hluta í For­laginu, stærstu bóka­út­gáfu landsins. Mál og menning, sem áður átti For­lagið, mun á­fram fara með 30 prósenta hlut í fé­laginu.

Í færslunni á­réttar Hall­dór að þrennt hafi vakið fyrir fé­laginu þegar á­kveðið var að selja meiri­hluta þess til Stor­ytel.

„Að tryggja fram­tíð út­gáfunnar á miklum ó­vissu­tímum, að efla raf- og hljóð­bóka­væðingu ís­lenskra bók­mennta sem ó­sköp ein­fald­lega hefur setið á hakanum en sem mikil eftir­spurn er eftir meðal ís­lenskra les­enda, og að stækka markað ís­lenskra bók­mennta. Stor­ytel er út­gáfu­fé­lag og fyrir því vakir öðru fremur að fá sem flesta titla inn í sína streymis­veitu.“

Hall­dór segir að For­lagið muni starfa á­fram sem sjálf­stætt bóka­for­lag sem gefur út bækur á ís­lensku og fer eftir ís­lenskum samningum og lögum.

„Það er engin sam­eining fram­undan og það er ekki að fara neitt, enda ekki eftir­spurn eftir ís­lenskum bók­menntum er­lendis nema þær séu þýddar sem við vonum að verði nú í auknum mæli. Mál og menning hyggst starfa innan For­lagsins en líki okkur ekki vistin eigum við vöru­merki fé­lagsins og getum farið þegar okkur sýnist. Bók­mennta­fé­lagið setti sér í upp­hafi skýrt skil­greint aðal­mark­mið: Að koma bókum á ís­lensku á fram­færi við sem flesta les­endur á hag­stæðum kjörum. Eftir því hyggjumst við á­fram starfa, en ég sakna ekki stalínískrar for­tíðar fé­lagsins,“ segir Hall­dór sem segir að fyrst um sinn verði engar breytingar meðan Sam­keppnis­eftir­litið skoðar viðskiptin.

Hall­dór tjáði sig um söluna í gær og fagnaði því að öflugasta fyrir­tæki Norður­landa á sviði raf- og hljóð­bóka hafi kosið að fjár­festa í ís­lenskri bóka­út­gáfu.