Áslaug Árna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist ekki eiga von á að hertari sóttvarnaaðgerðir innanlands verði kynntar í dag.

„Nei ég býst ekki við því, kemur bara í ljós á eftir,“ sagði Áslaug við blaðamenn að loknum ríkisstjórnarfundi.

Hvorki heilbrigðisráðherra né forsætisráðherra vildu tjá sig að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun en vísuðu til þess að boðað yrði til blaðamannafundar síðar í dag. Hann hefur nú verið boðaður og fer fram í Hörpu klukkan 16 í dag.

Blaðamaður Fréttablaðsins ræddi nánar við Áslaugu Örnu um hertari aðgerðir og samstarfið í ríkisstjórninni.

Gríðarleg herðing reglna síðustu mánuði

Ertu hlynnt því að herða að einhverju leyti á landamærum?

„Já við viljum auðvitað tryggja það að smit berist sem minnst til landsins og erum alltaf að skoða það en það verður auðvitað gert í takti við árangur í bólusetningum.

Ertu hlynnt því að herða reglurnar við landamærin?

„Við höfum auðvitað verið að herða sóttvarnarreglur gríðarlega mikið undanfarna mánuði.“

Ertu hlynnt því að gera það enn frekar nú í ljósi fjölda smita?

„Já við erum að ræða það hvort það sé eitthvað sem þarf að gera til að bregðast við þessari stöðu.“

Þannig að við búumst við því að það verði brugðist við í ljósi mikilla smita?

„Við erum alltaf að ræða stöðuna í hverri viku, til að geta brugðist við og gera enn betur.“

„Við erum bara brött“

Er sátt í ríkisstjórninni um hvaða leiðir á að fara?

Jájá það er mikil sátt.“

Er enginn ágreiningur?

„Það er alltaf rætt og spurt spurninga, þannig komumst við að góðri niðurstöðu.“

Enginn ágreiningur?

„Nei enginn sérstakur.“

Allir glaðir bara?

„Já já, við erum bara brött, það gengur almennt vel, gengur vel að bólusetja. Það er auðvitað leiðinlegt að fá smit inn í landið og maður skilur reiði og særindi gagnvart því en þannig er staðan líka í flestum löndum í kringum okkur.“

Ríkisstjórnarfundi lauk upp úr hádegi í dag.
Fréttablaðið/ERNIR.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokkinn segir samstarfið einnig ganga vel í ríkisstjórn.

„Eitt af því sem við munum gera í dag er að útskýra hvernig við sjáum framhaldið fyrir okkur á landamærum og innanlands og sambandið þar á milli, segir Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins um efni blaðamannafundarins á eftir.

Hann segist skilja reiði fólks gagnvart sóttvarnabrotum. „Já ég geri það og ég held það brenni í okkur öllum svolítill pirringur og reiði, því ef menn fylgdu þeim reglum sem búið er að setja af sóttvarnayfirvöldum þá værum við ekki að kljást við þetta í dag.“

„Ég held það brenni í okkur öllum svolítill pirringur og reiði, því ef menn fylgdu þeim reglum sem búið er að setja af sóttvarnayfirvöldum þá værum við ekki að kljást við þetta í dag.“

Sigurður Ingi segir engan ágreining í ríkisstjórninni um sóttvarnaaðgerðir.

„Það hafa verið ólík sjónarmið í baklandi flokkanna og frá þingmönnum og menn hafa auðvitað heyrt þau en í ríkisstjórninni höfum við blessunarlega verið samstíga í þeim ákvörðunum sem við höfum tekið.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

Í fyrri útgáfu var haft eftir dómsmálaráðherra að hún gerði ekki ráð fyrir því að hertari aðgerðir yrðu kynntar í dag. Fréttin hefur nú verið uppfærð með leiðréttingu þess efnis að dómsmálaráðherra hafi ekki gert ráð fyrir að hertari aðgerðir innanlands yrðu kynntar í dag.