„Tímasetningin er umdeilanleg, ég held að það sé alveg ljóst eins og bent hefur verið á. Hvort hún sé rétt eða röng skal ég ekki segja til um,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

Guðmundur Ingi segir eitt verkefni stjórnarsáttmálans snúa að hlutverki ríkissáttasemjara og að það sé fram undan að skoða lagaumgjörðina á því sviði í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

„Ég held að þetta atriði sem við erum að ræða núna að það muni klárlega koma inn í þá umræðu þegar við förum í þá vinnu. Þar er líka tengsl þessarar umræðu við verkfallsréttinn sem að mínu viti er mjög mikilvægur. Það verður áhugavert í ljósi þessarar ákvörðunar ríkissáttasemjara meðal annars hvernig hægt sé að horfa til þessara þátta inni í þeirri vinnu,“ segir Guðmundur Ingi jafnframt.

Umdeild ákvörðun

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari ákvað í liðinni viku að stíga inn í kjaradeilur aðila vinnumarkaðarins með því að leggja fram miðlunartillögu. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd og segja margir tillöguna lagða fram of snemma í deilunum.

Guðmundur Ingi segir ríkissáttasemjara hafa fulla heimild til að leggja fram miðlunartillögu líkt og hann gerði. Þetta sé ekki í fyrsta skipti sem miðlunartillaga er lögð fram í kjaradeilum en þessi sé að ákveðnu leyti óvenjuleg.

„Tillagan er óvenjuleg vegna þess að hún hefur valdið óánægju beggja deiluaðila, um að hún sé komin fram og þá hefur tímasetningin líka verið gagnrýnd,“ segir Guðmundur Ingi.

Guðmundur Ingi segir það á ábyrgð ríkissáttasemjara að meta það hvort nauðsynlegt hafi verið að ráðast í miðlunartillögu á þessum tímapunkti. „Þetta er greinilega hans mat að þetta sé sá tímapunktur og það er hans hlutverk að meta það.“

Skilur gagnrýnina

Aðspurður hvort hann skilji gagnrýni aðila vinnumarkaðarins vegna ákvörðunar ríkissáttasemjara svarar Guðmundur Ingi játandi.

„Ég held ég skilji gagnrýnina á ákvörðunina. Þarna er alveg ljóst að aðilar vinnumarkaðarins, bæði Efling og SA, hafa lýst óánægju sinni og vonbrigðum og gagnrýnt þessa ákvörðun. Ég skil hvaðan þau eru að koma. Þau voru kannski á þeim stað að vilja reyna láta reyna frekar á að ná sama með þeim tækjum og tólum sem þau hafa til þess,“ segir hann og bætir við að ríkissáttasemjari hafi einnig greint honum frá því hvers vegna hann tekur ákvörðunina.

Guðmundur Ingi segir ekkert óeðlilegt við það að aðilar vinnumarkaðarins kanni möguleika sína á að fá úr málinu skorið fyrir dómstólum eða með því að kvarta til umboðsmanns Alþingis. „Það er algjörlega þeirra ákvörðun að skoða slíkar leiðir,“ segir hann að lokum.