„Ég bara botna ekkert í þessari afsökunarbeiðni ef ég á að vera hreinskilinn,“ segir Stefán Jakobsson tónlistarmaður um afsökunarbeiðni forseta Íslands í gær.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, baðst afsökunar á að hafa notað orðið fáviti í ræðu. Hann sagði fyrir landsleik gegn Rúmeníu að því fylgdi ábyrgð að koma fram fyrir Íslands hönd og krafa um að haga sér sómasamlega og vera ekki fáviti. Guðni segist hafa tekið of sterklega til orða og það geri engum gott, allra síst honum sjálfum.

Stefán, eða Stebbi Jak, bendir á að „Ekki vera fáviti“ séu einkunnarorð Eistnaflugs. Hann hefur sjálfur margoft notað fávitaorðið til að brýna fólk til að hegða sér vel.

„Það að nota þetta orð þýðir ekki að einhver hafi verið kallaður fáviti. Það að vera fáviti er í mínum huga í þessu samhengi að gera eitthvað rangt á hlut einhvers, vitandi að það sé rangt,“ segir Stebbi Jak, en hann er lærður þroskaþjálfi.

favitamynd.jpg